
Niðurstaða: Söngurinn var ekki alveg fullkominn, en samt var margt verulega vel gert.
Carmina Burana eftir Carl Orff. Stjórnandi: Fjóla Kristín Nikulásdóttir. Einsöngvarar: Bryndís Guðjónsdóttir, Guðmundur Karl Eiríksson og Þorsteinn Freyr Sigurðsson. Kórinn samanstóð af Hljómfélaginu, Selkórnum og Skólakórs Kársness. Stjórnandi skólakórsins var Álfheiður Björgvinsdóttir. Hljómsveit samanstóð af tveimur píanóleikurum og slagverksleikurum.
Norðurljós í Hörpu
sunnudagur 8. maí
Í byrjuninni á Carmina Burana eftir Carl Orff syngur kórinn „O fortuna!“ sem er latína og þýðir „Ó forsjón.“ Því miður hefur mörgum misheyrst í gegnum tíðina og haldið að kórinn væri að syngja „go for tuna“ eða „veljið túnfisk.“ Kórinn á tónleikunum í Norðurljósum í Hörpu á sunnudaginn var þó ágætlega skýrmæltur og sennilega misskildi enginn neitt, sem betur fer.
Kórinn samanstóð af þremur hópum, Hljómfélaginu, Selkórnum og Skólakór Kársness, en sá síðastnefndi var reyndar í langminnsta hlutverkinu og kom bara fram undir lokin. Heilt gengi af slagverksleikurum spilaði og einnig tveir píanóleikarar. Herlegheitunum var svo stjórnað af Fjólu Kristínu Nikulásdóttur.
Munkarnir fengu nóg
Textinn í Carmina Burana er úr hluta af handritum frá þrettándu öld sem uppgötvuðust fyrir um tvö hundruð árum síðan í munkaklaustri í Benedikt-Beuren í Bæjaralandi. Þetta er samansafn ljóða fyrrverandi munka sem höfðu fengið nóg af klausturlífinu og fóru út í heim að njóta lífsins og klípa í afturendann á hinu kyninu. Andrúmsloftið í tónlistinni er yfirleitt hressilegt og þrungið lífsgleði.
Segja má að þetta sé táknrænt fyrir þá tíma við lifum núna. Vissulega erum við ekki uppgjafamunkar, en engu að síður höfum við verið í einangrun vegna Covid. Núna er maður eins og kálfur að vori; frelsið er dýrlegt!
Smitandi sönggleði
Gleðin var svo sannarlega til staðar í flutningnum í Hörpu. Kórinn var þó nokkra stund að komast í gang. Söngurinn var fremur stirður í byrjun og sérstaklega voru karlarnir, þegar þeir sungu einir, dálítið drafandi. Það vantaði léttleika og snerpu í sönginn. Sömuleiðis voru konurnar heldur þungar á sér í sjöunda kaflanum, Hinn eðli skógur springur út, sem og víðar. Þetta lagaðist þó allt er á leið, og síðari hlutinn var prýðilega sunginn af kórnum.
Skólakór Kársness var flottur, söngur hans var tær og bjartur, og í ágætu jafnvægi.
Misjafn einsöngur
Einsöngvarar voru þrír, en Guðmundur Karl Eiríksson baríton var í veigamesta hlutverkinu. Hann átti góða spretti en söngur hans var engu að síður nokkuð misjafn. Það vantaði fleiri liti í sönginn, hann var oft sviplítill. Sópransöngur Bryndísar Guðjónsdóttur var sömuleiðis snyrtilegur en ekki sérlega grípandi; hann var ekki nógu safaríkur.
Helst má hæla tenórnum Þorsteini Frey Sigurðssyni fyrir frammistöðu sínu í því sem er líklega vanþakklátasta tenórhlutverk tónbókmenntanna. Hann var þar í hlutverki svans sem verið var að steikja á teini og söng „æ mig auman! Orðinn svartur og krauma af krafti“. Söngvarinn var skrækróma, söng stundum í falsettu. Þetta hefði getað hljómað eins og hann væri raddlaus, enda virtist hann fremur skömmustulegur á svipinn í uppklappinu. Það var þó engin ástæða til; þvert á móti.
Hljómsveitin stóð sig með eindæmum vel, bæði slagverk og píanó. Styrkleikajafnvægi á milli hljómsveitar, kórs og einsöngvara var eins og best verður á kosið, og Fjóla Kristín stjórnaði öllu af smekkvísi, kunnáttu og fagmennsku. Þetta voru skemmtilegir tónleikar þrátt fyrir ýmsa vankanta, enda var tónlistarfólkinu ákaft fagnað.