Píanóleikurinn var göldrum líkastur

Niðurstaða: Einhverjir bestu djasstónleikar sem hér hafa verið haldnir.

Craig Taborn lék á píanó tónlist eftir sjálfan sig

Salurinn í Kópavogi

Sunnudaginn 8. maí

Henry Pleasants var ekki aðeins tónlistargagnrýnandi um miðja síðustu öld, heldur líka starfsmaður hjá CIA. Hann skrifaði m.a. tvær athyglisverðar bækur, Serious Music and All That Jazz og The Agony of Modern Music. Þar fullyrti hann að akademísk tónlist þess tíma væri komin á villigötur og að djassinn væri hið rökrétta framhald vestrænnar fagurtónlistar. Laglínan skipti öllu máli í tónlist og án hennar væri hún dauð.

Ég hugsa að Pleasant hefði ekki orðið sérlega hrifinn af tónleikum djasspíanóleikarans Craig Taborn, sem voru haldnir í Salnum í Kópavogi sunnudagskvöldið 8. maí. Þar var fjarskalega lítið um laglínur. Vissulega voru allskonar laghendingar, en ekki mikið af því sem maður gæti raulað í sturtu.

En það er til djass og djass. Það sem bar fyrir eyru á tónleikunum flokkast undir frjálsan djass. Slík tónlist byrjar á fremur einfaldan hátt, en síðan hefst framvinda sem er afar tilraunakennd og lætur kannski ekkert sérlega vel í eyrum.

Súrrealísk tónlist

Það verður að viðurkennast að fyrsta verkið á tónleikum Taborns lét mann klóra sér í kollinum. Hráir og hranalegir tónar voru endurteknir í mismunandi tónhæðum, og hljómagangurinn virtist handahófskenndur. Spuninn sem svo tók við var einkennilegur, hljómarnir ómstríðir og atburðarrásin súrrealísk.

Næsta lag var hins vegar ótrúlega magnað. Það var mjög hratt og fingrafimi píanóleikarans var svo aðdáunarverð að hún minnti helst á Art Tatum á fyrri hluta síðustu aldar. Tatum var einn mesti snillingur slaghörpunnar í djassinum; tækni Taborns gaf honum ekkert eftir. Hvílíkar flugeldasýningar!

Hrollvekjandi þráhyggja

Annað lag var líka beinlínis hrollvekjandi á tónleikunum. Þar var sama þráhyggjukennda hendingin endurtekin í sífellu í bassanum, en ofan á hana prjónaði Taborn með hægri hendinni allskonar magnþungnar strófur sem urðu sífellt áleitnari. Útkoman var svo spennandi að ég hef sjaldan eða aldrei heyrt annað eins á djasstónleikum á Íslandi.

Þetta voru stórkostlegir tónleikar.  Upp kom í hugann samanburður við píanóleikarann Keith Jarrett, sem var svo sannarlega yfirburðasnillingur áður en hann missti getuna fyrir nokkrum árum síðan. Tónlist þeirra Taborns er samt ákaflega ólík. Tónlist Jarretts er rómantísk og horfir til fortíðar, sú sem Taborn bar fram hér horfir langt fram í tímann. Hvergi var dauður punktur á tónleikunum, manni var komið á óvart aftur og aftur. Tæknin píanóleikarans var frábær, hún var slík að engin hindrun var á flæðinu, innblásturinn var óheftur og göldrum líkastur. Þetta var snilld; já, hrein opinberun.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s