
Niðurstaða: Bráðskemmtilegir tónleikar.
Andrea Bocelli söng blandaða dagskrá. Með honum komu fram Jóhanna Guðrún, Maria Aleida Rodriguez og Anastasyia Petryshak. Sinfonia Nord lék. Marcello Rota stjórnaði.
Kórinn í Kópavogi
laugardagur 21. maí
Ég tók myndskeið af öllum fjöldanum í hléinu á tónleikum Andrea Bocellis í Kórnum á laugardagskvöldið og birti á Facebook. Einn vinur minn kommenteraði: „Hefði verið fullkomið tækifæri til að bólusetja með fjórðu sprautunni. Bara svona fyrst allir gamlingjar á höfuðborgarsvæðinu voru á annað borð mættir.“
Ég verð að mótmæla þessari hæðni! Það voru síst bara gamlingjar á tónleikunum, þótt meðalaldurinn hafi verið fremur hár. En fagnaðarlætin voru svo sannarlega alveg jafn mikil og á popptónleikum með æstum unglingum. Alsæla tónlistarinnar spyr ekki um aldur.
Söngur misjafn en mikið karisma
Andrea Bocelli er reyndar ekki besti óperusöngvari í heimi. Rödd hans er fremur hörð, mjó og virðist dálítið klemmd á efstu tónunum. Engu að síður voru tónleikarnir bráðskemmtilegir. Gríðarlegt karisma, þ.e. sviðssjarmi, vóg upp á móti veiku hliðunum, og tilfinningin í hverju lagi var svo sannarlega ekta. Bocelli söng áreynslulaust og af óheftum krafti, og lögin voru hvert öðru skemmtilegri. Þau voru allt þekktir óperusmellir fyrir hlé, en seinni hluti dagskrárinnar var poppaðri.
Lögin sem Bocelli söng voru t.d. La donna e mobile eftir Verdi, You‘ll Never Walk Alone eftir Rodgers, Nessun Dorma eftir Puccini og Con te partiro eftir Sartori. Það síðastnefnda er spilað þrisvar sinnum í einum þættinum um Soprano fjölskylduna, og þá einmitt með Bocelli. Söngvarinn er nefnilega heimsfrægur og hefur selt óguðlega mikið af plötum.
Söngvarinn var með lokuð augu
Bocelli er blindur, og það ásamt því að hann er fjallmyndarlegur og glæsilegur, er án efa stærsti hluti sviðssjarmans og frægðarinnar. Hann var með lokuð augun allan tímann og fyrir vikið virtist hann auðmjúkur á einhvern heillandi hátt. Maður fékk einfaldlega ekki nóg af því að horfa á hann.
Með söngvaranum spilaði Sinfonia Nord undir stjórn Marcello Rota. Hún gerði það mjög vel. Auðvitað var tónlistarflutningurinn magnaður upp, annað væri ekki hægt í slíku gímaldi sem Kórinn er. Klassísk tónlist er viðkvæm fyrir því, en hér var virkilega vel að verki staðið. Hljómsveitarleikurinn var skýr en að sama skapi mildur og í fínu styrkleikajafnvægi. Spilamennskan var nákvæm og fagmannleg, allar nótur voru á sínum stað.
Góðir gestir
Nokkrir listamenn komu fram með söngvaranum. Maria Aleida Rodriguez söng af yfirburðum, þ á m. nokkra dúetta með Bocelli. Rödd hennar virtist samt örlítið lægri í hátalarakerfinu. Sennilega var það með ráðum gert. Enginn mátti skyggja á stjörnuna.
Jóhanna Guðrún var sérstakur gestur á tónleikunum. Söngur hennar kom best út þegar hún flutti Vetrarsól eftir Gunnar Þórðarson. Flutningurinn var tilfinningaþrunginn og glæsilegur, röddin sérlega mögnuð. En dúettarnir hennar með Bocelli voru síðri af ofangreindum ástæðum. Hljóðblöndunin var Bocelli í hag og lítið heyrðist í söngkonunni.
Anastasyia Petryshak lék svo á fiðlu, m.a. hinn fræga Czardas eftir Monti. Það var smart, fiðluleikurinn var öruggur og jafn, og það gneistaði af honum. Fiðluhljómurinn var þó skrýtinn í hljóðkerfinu, hljóðjöfnunin hampaði of mikið neðra tónsviðinu, með þeim afleiðingum að fiðlan hljómað bara hreint ekkert eins og fiðla.
Eins og áður sagði voru fagnaðarlætin gífurleg, það var æpt og grenjað á eftir hverju lagi, enn meira eftir hlé. Öll umgjörð tónleikanna virtist líka vera til fyrirmyndar, skiplagið var gott og það rann allt snurðulaust. Þetta var virkilega gaman.