
Niðurstaða: Sérdeilis skemmtilegir tónleikar með flottri tónlist, hrífandi hljómsveitarstjórn og söng, og frábærum hljóðfæraleik.
Verk eftir Berg, Schönberg, Ives og Gershwin á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Barbara Hannigan stjórnaði og söng einsöng.
Eldborg í Hörpu
laugardagur 4. júní
Ég sá einu sinni brandara á netinu um tónskáldið Alban Berg. Mynd var af honum og undir stóð Berg. Hægra megin var sama myndin aftur, en varalit og augnskugga hafði verið bætt við. Undir stóð Schön Berg, þ.e. fagri Berg. Þetta var orðaleikur, Arnold Schönberg var alveg sjálfstætt tónskáld og þeir Berg voru vinir.
Schönberg var svo sannarlega fagur á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á laugardaginn. Flutt var Verklärte Nacht, eða Uppljómuð nótt, eftir hann. Tónlistin er innblásin af ljóði eftir Richard Dehmel. Hún fjallar um umbreytingarmátt ástarinnar í samtali tveggja elskenda á göngu úti í skógi undir stjörnubjörtum himni.
Framvinda kom á óvart
Schönberg er þekktur fyrir hið svokallaða tólftónakerfi, sérstaka tónsmíðaðaferð sem getur af sér mjög ómstríða tónlist. Tónlistin hér var þó sköpuð áður en Schönberg missti sig út í framúrstefnuna. Hún er í mjúkum síðrómantískum stíl í takt við ljóðið. Verkið er samt býsna flókið, úrvinnsla tónhugmyndanna er hugmyndarík og framvindan kemur stöðugt á óvart. Þéttofinn hljómsveitarvefurinn myndar fjölbreytt blæbrigði og það er í þeim stígandi; hvergi er dauður punktur í tónmálinu.
Barbara Hannigan stjórnaði hljómsveitin og gerði það ákaflega vel. Túlkunin var draumkennd og skáldleg, það var einhver upphafin stemning yfir öllu saman. Tæknilega séð var hljómsveitarleikurinn nákvæmur og einbeittur, allt var á sínum stað hjá mismunandi hljóðfærahópum. Útkoman var sjaldheyrður unaður.
Eins og vísindaskáldskapur
Alban Berg átti líka tónsmíð á efnisskránni, en það var svíta í fimm þáttum úr óperunni Lulu. Að þessu sinni var tólftónakerfið allsráðandi, en samt var tónlistin ekki leiðinleg. Kerfið er vissulega vísindalegt og þurrt, en Berg gaf sér ákveðið listrænt frelsi. Tónlist hans er því aldrei einhver dauð formúla úr vísindalegri rannsókn, heldur meira í ætt við vísindaskáldskap þar sem allt getur gerst.
Aftur var túlkun Hannigan einstaklega sannfærandi. Og ekki bara hljómsveitarstjórnin. Hún er nefnilega líka sópransöngkona í fremstu röð og söngur hennar var hástemmdur og forkunnarfagur. Þegar hún hóf upp raust sína sneri hún sér við til áheyrenda og stjórnaði með hálfgerðum dansi sem afar gaman var að horfa á.
Annarlegir en dillandi
Tvö önnur verk voru á dagskránni. Annað var hið dularfulla The Unanswered Question eftir Charles Ives, sem var ákaflega fallega leikið af hljómsveitinni. Hljómur blásturshljóðfæra var seiðandi, og lágstemmdur þytur undir var sérlega fallegur.
Hitt verkið var Girl Crazy eftir George Gershwin, svíta útsett af Hannigan og Bill Elliott í stíl Albans Berg. Enda var það flutt strax á eftir tónsmíð þess síðastnefnda. Hljómar hljómsveitarinnar voru annarlegir en laglínurnar dillandi; síðasta lagið var hið fræga I Got Rythm.
Hannigan söng og stjórnaði og dansaði og gerði það allt af yfirburðum. Söngurinn var fullur af krafti og ástríðu, en samt var röddin tær og fullkomlega mótuð. Hljómsveitin spilaði af gríðarlegu fjöri, en líka með rétta aganum þar sem styrkleikajafnvægi og samspil var eins og best var á kosið. Það var líka smart þegar hljómsveitin söng á einum tímapunkti. Lokahnykkurinn var svo yfirgengilegur að áheyrendur spruttu á fætur og öskruðu, undirritaður þar á meðal.