Andrúmsloft hugleiðslu og bænar

Niðurstaða: Mergjað tónmál, magnaður flutningur.

Guðspjall Maríu eftir Huga Guðmundsson

Flytjendur voru Sinfóníettan í Osló, Schola cantorum, Berit Norbakken og Kåre Nordstoga. Hörður Áskelsson stjórnaði

Hallgrímskirkja

sunnudagur 5. júní

Eins og kunnugt er samanstendur Nýja testamentið m.a. af fjórum guðspjöllum, en fleiri eru til. Mörg þeirra voru uppgötvuð árið 1945 í Nag Hammadi í Egyptalandi. Guðspjall Maríu, sem er meginuppistaðan í texta samnefnds verks eftir Huga Guðmundsson, og var frumflutt á Listahátíð í Hallgrímskirkju á sunnudaginn, uppgötvaðist þó fyrr, eða 1896.

Þar birtist önnur sýn á Maríu Magdalenu en við eigum að venjast. Hún á t.d. að hafa verið eiginkona Jesú, nokkuð sem lesendur tryllisins Da Vinci lykilsins ættu að ráma í. Einnig kemur fram að þjáning og dauði sé ekki vegurinn til eilífs lífs, heldur andleg þekking í kenningum Jesú. Guðspjall Maríu er hluti af svokölluðum gnostískum ritum, dregið af gríska orðinu gnosis, sem þýðir þekking. Þessi þekking leiðir til frelsunar undan oki hins illa, hún er lykillinn að sáluhjálpinni.

Heilsteyptur kórtexti

Til að gera texta verksins heillegan – Guðspjall Maríu er aðeins brot úr stærra handriti sem hefur glatast – var bætt í hann hugleiðingum kvenguðfræðinga fyrr alda. Þar eru líka frumsamdir kórtextar eftir Niels Brunse og Nilu Parly. Útkoman var sannfærandi skáldskapur, íhugull og andaktugur. Guðfræðin kann að hafa farið í taugarnar á einhverjum, en þá ber að benda á að tónsmíðin var ekki predikun heldur listaverk. Í skáldskap er jú allt leyfilegt.

Tónlistin eftir Huga var afar falleg. Hún var mest megnið mjög lágstemmd og innhverf. Í trúarverkum eru oft tilfinningapsrengjur, eins og t.d. í mörgum messum og sálumessum, þar sem sungið er um óumræðilega dýrð og skelfilegt helvíti. Slíkar öfgar voru fjarri hér. Að vísu voru tveir kaflar þar sem aðeins var gefið í, e.t.v. til að skapa fjölbreytni. Það var aldrei sérlega krassandi, og átti sjálfsagt ekki að vera það.

Táknmál í hljóðfæraleiknum

Eins og vaninn er í trúarlegum tónsmíðum endurspeglaðist söngtextinn í líkingum í hljóðfæratónlistinni. Tónstigar og hlaup upp á við táknuðu líklega bænir til æðri máttarvalda, en hlaup og tónstigar niður á við þá náð sem kemur að ofan. Þetta er auðvitað mikil einföldun, en gefur örlitla hugmynd um þá táknfræði sem tónlistin var gegnsýrð af. Tónlistin virkaði í öllu falli, hún miðlaði einlægri trúartilfinningu, og jafnvel sannfæringu til áheyrenda.

Inn á milli voru forkunnarfagrir sálmar sem eiga örugglega eftir að lifa um ókomna tíð sem sjálfstæð tónverk. Þeir voru einskonar hugleiðingar um það sem fram kemur í sjálfu guðspjallinu. Auk þess voru nokkrir íhugunarkenndir einleikskaflar, sem ennfremur juku á andrúmsloft hugleiðslu og bænar.

Berit Norbakken sópran söng einsöng og gerði það ákaflega fallega. Tær röddin var full af innblæstri og tilfinningum. Kórinn Schola cantorum söng svo undir stjórn Harðar Áskelssonar, og Sinfóníettan í Osló lék ásamt Kåre Nordstoga á orgelið. Allt var það nákvæmt og agað, en líka innilegt og grípandi. Flæðið í tónlistinni var áþreyfanlegt og undiraldan auðfundin. Þetta var frábært. 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s