Stórfenglegur kórsöngur og flott tónlist

Niðurstaða: Magnaður söngur, falleg tónlist.

Barbörukórinn flutti íslenska dagskrá

Hafnarborg

sunnudaginn 19. júní

Ég sá einu sinni hryllingsmyndina The Believers. Hún fjallar um Santeria, eins konar vúdútrú á Kúpu og víðar. Dýrkunin kom með þrælunum frá Afríku og blandaðist kaþólskri trú. Þrælarnir héldu áfram að tilbiðja guði sína, en dulbjuggu þá sem dýrlinga. Heilög Barbara var t.d. í rauninni þrumuguðinn Shango. Það var vegna þess að hún átti að hafa verið líflátin af föður sínum á þriðju öld fyrir það að hafa gerst kristin. Eftir voðaverkið skall á þrumuveður og morðinginn var lostinn eldingu sem dró hann til dauða.

Barbara var dýrkuð meira áður fyrr. Nú er hennar ekki einu sinni minnst lengur í messum kaþólsku kirkjunnar, því allsendis er óljóst að hún hafi yfir höfuð verið til. En vísbendingar eru um Barbörudýrkun hér á landi fyrr á öldum. Ofurlítið líkneski af henni fannst í fornri kapellu í Kapelluhrauni til móts við Staumsvík um miðja síðustu öld.

Barbara mær

Kristján Eldjárn, fyrrum þjóðminjavörður og forseti, átti heiður af fundinum. Sonur hans, Þórarinn Eldjárn, hefur ort fallegt ljóð til dýrlingsins, Barbara mær. Það var tónsett af Huga Guðmundssyni og gat að heyra á tónleikum á Sönghátíð í Hafnarborg á sunnudaginn. Tónlistin var lagræn án þess að vera banal. Tóntegundaskiptin voru oft óvænt og laglínurnar heillandi. Mjög viðeigandi var að Barbörukórinn flutti lagið. Ekki þarf að taka það fram að hann er einmitt kenndur við heilaga Barböru líka.

Kórinn er blandaður og samanstendur af sextán manns, fjórum í hverri rödd. Stjórnandi er Guðmundur Sigurðsson. Söngur kórsins var með eindæmum fagur á tónleikunum. Jafnvægið á milli raddanna var óvenjugott. Þetta var t.d. einhver besti kórbassi sem ég hef heyrt, svo tær en jafnframt þróttmikill. Samsöngurinn var þéttur og einbeittur, og svo var bara svo falleg og einlæg tilfinning í túlkun hvers einasta lags.

Tímalaus tilfinning

Eitt það mest hrífandi var Land míns föður eftir þórarinn Guðmundsson við ljóð Jóhannesar úr Kötlum. Söngurinn var tignarlegur og í hárréttu tempói, gæddur svo mikilli þjóðernisást að maður komst við. Tilfinningin var tímalaus og handan við hið hversdagslega. Þetta var Ísland í þúsund ár – svo sannarlega.

Efnisskráin samanstóð af nýjum lögum í bland við eldri. Hrímey eftir Huga var skemmtileg, og sömu sögu er að segja um nokkur lög eftir einn kórfélagann, Auði Guðjohnsen. Þau voru ljóðræn, tilfinningaþrungin og seiðandi; flæðið í þeim var afar sannfærandi. Tvö lög eftir Báru Grímsdóttur og eitt eftir Þóru Marteinsdóttur voru líka glæsileg.

Of langt mál væri að telja upp hvert einasta atriði dagskrárinnar, sem samanstóð af fimmtán lögum. En ég held að meira að segja Allt í grænum sjó eða Gamli Nói hefði komið frábærlega vel út meðförum kórsins. Söngur hans var einfaldlega ekki af þessum heimi.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s