
Niðurlag: Nokkuð misjafnir tónleikar, bæði flutningur og tónlist.
Verk eftir Magnús Ragnarsson, Hreiðar Inga Þorsteinsson, Báru Grímsdóttur, P. E. Fletcher og J. Alain. Magnús Ragnarsson lék á orgelið, Lilja Dögg Gunnarsdóttir söng.
Hallgrímskirkja
laugardaginn 9. júlí
Kvikmyndir á borð við Blade Runner, Minority Report og Total Recall eru byggðar á sögum Philips K. Dick. Þetta eru alvarlegar myndir, en Dick var engu að síður húmoristi. Hann átti t.d. kött sem hét Magnificat. Maður gæti ætlað að nafnið þýddi „magnaður köttur“ en svo er ekki. Magnificat er nafnið á hinum svokallaða Lofsöng Maríu, sem er í Nýja testamentinu og hefst á þessum orðum: „Önd mín miklar Drottin og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.“
Ljóðið hefur margsinnis verið tónsett, og á hádegistónleikum í Hallgrímskirkju á laugardaginn gat að heyra enn eina útgáfuna, að þessu sinni íslenska. Meira um hana hér fyrir neðan.
Ekki alveg
Á tónleikunum komu fram Magnús Ragnarsson sem lék á orgel og Lilja Dögg Gunnarsdóttir altsöngkona. Efnisskráin hófst á Hátíðartokkötu eftir Percy E. Fletcher. Tokkötur eru alltaf líflegar og hraðar og svo var einmitt nú. Þetta var fjörug og uppliftandi tónlist, en því miður var hún ekki sérlega vel leikin. Það var allt morandi í feilnótum sem má líklega skrifast á taugaóstyrk. Fyrir bragðið komst andi tónlistarinnar ekki almennilega til skila.
Næst á dagskrá var María Drottins lilja eftir Báru Grímsdóttur. Lilja Dögg steig þá fram fyrir áheyrendur og hóf upp raust sína. Hún söng fallega. Söngurinn var fíngerður og vel mótaður, þó e.t.v. með heldur miklum áherslum á fyrstu atkvæði orðanna, en of litlum á hin atkvæðin. Söngkonan hefði í öllu falli mátt syngja meira út, því maður upplifði heildarútkomuna eilítið eins og slag á milli fínku og fíls. Orgelið – fíllinn – var býsna fyrirferðarmikið þrátt fyrir að Magnús reyndi greinilega að leika veikt. Það dugði ekki til.
Frumflutningur
Eitt verk var frumflutt á tónleikunum, Salve Regina eftir Magnús. Þetta er stutt bæn til Maríu meyjar sem á íslensku hefst svo: „Heil sért þú, Drottning, móðir miskunnarinnar, líf, yndi og von vor; heil sért þú.“ Lilja Dögg söng á latínu og tónlistin var almennt talað falleg. Bænin er þó tiltölulega látlaus og kannski var tónlistin full íburðarmikil, með of tíðum, órólegum kaflaskiptum, til að bænin kæmist virkilega á flug. Orgelleikurinn var líka fremur groddalegur fyrir háleitan textann. Lilja Dögg söng þó prýðilega og orgelleikurinn var yfirleitt vandaður, en aftur hefði söngurinn mátt heyrast meira á kostnað orgelsins.
Magnús var greinilega kominn í meira stuð þegar hér var komið sögu, því Litanies eftir Jehan Alain kom ágætlega út. Þetta var einleiksverk og spilamennskan var þétt og nákvæm.
Síðasta verkið var líka glæsilegt, en það var fyrrnefnt Magnificat eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson. Laglínan var mjög grípandi, í svokölluðum hljómhæfum moll, og orgelundirleikurinn var sérlega einfaldur, aðeins liggjandi hljómar. Fyrir vikið valtaði hann aldrei yfir sönginn, sem var ákaflega tilfinningaþrunginn og hrífandi. Orgelhápunktarnir inn á milli söngerinda voru þó hugsanlega of voldugir og sterkir, því þeir virkuðu ögn tilgerðarlegir. Engu að síður var heildarmyndin skemmtileg og var þetta ágætur endir á dagskránni.