Sönghátíð sem verður betri og betri

Verk eftir Albeniz, Jáuregui, Alís, León, Derriça, Granados og Sigvalda Kaldalóns. Flytjendur: Sonos Ensemble og Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir sem söng.

Hafnarborg

sunnudaginn 10. júlí

Niðurstaða: Flottir tónleikar með athyglisverðri og skemmtilegri tónlist.

Mark Twain sagði eitt sinn að það þyrfti að skipta oft um stjórnmálamenn og bleiur – af sömu ástæðu. Hann var einstaklega orðheppinn og gat verið mjög fyndinn. Öllu alvarlegri undirtónn var í ljóðinu Warm Summer Sun, sem er hugleiðing um lífið og endalok þess. Ljóðið var tónsett af Francisco Javier Jáuregui og flutt á lokatónleikum Sönghátíðar í Hafnarborg á sunnudaginn.

Í takt við stuttan og hnitmiðaðan kveðskapinn var tónlistin fremur einföld, en aldrei einfeldningsleg. Hún var leikin af Sonor Ensemble (fimm strengjaleikurum og píanóleikara) og tónskáldinu sjálfu á gítar. Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran söng.

Skálskapurinn var hrífandi og byggðist á mjög fábrotnum hljómagangi, reyndar meiri partinn á einum liggjandi hljómi. Sannfærandi stigmögnun var í tónlistinni, hljóðfæraleikurinn var þéttur og söngurinn tilfinningaþrunginn og hrífandi. Þetta var mergjað.

Umhverfis hnöttinn

Tónleikarnir voru helgaðir Magellan-Elcano leiðangrinum, þegar ferðast var umhverfis hnöttinn í fyrsta sinn. Um þessar mundir eru fimm hundruð ár síðan leiðangrinum lauk. Eitt verkið á efnisskránni, eftir Tiago de Sousa Derriça, var um þessa miklu sjóferð, og gat að heyra tvo þætti.

Textinn við annan þeirra var eftir Rómverjann Seneca, spádómur um landafundi sem rættist mörgum öldum síðar. Tónlistin var stórbrotin og svipsterk, full af dramatískum andstæðum. Guðrún Jóhanna söng af sannfærandi tilþrifum, flæðið í túlkun hennar var óheft, með djúpri og kröftugri undiröldu.

Svipaða sögu er að segja um flutning hennar á tveimur söngljóðum eftir Román Alís. Þau voru ofsafengin, en einnig blíð og söngurinn var stórbrotinn og tignarlegur. Gaman var líka að þremur baskneskum þjóðlögum í úsetningu Jáuregui, sem voru margbreytileg og litrík. Hljóðfæraleikurinn var það einnig, hlaðinn blæbrigðum.

Margbrotin efnisskrá

Sama má reyndar fullyrða um efnisskrána í heild sinni. Sumt var vissulega alvarlegt og dapurlegt, en sólin kom nokkrum sinnum fram undan skýjunum. Cadiz og Sevilla eftir Albeniz voru gædd miklu stuði og tveir argentískir dansar eftir León voru svo hamslausir í ástríðuþrungnum hápunktunum að það var eiginlega fyndið – á góðan máta.

Loks ber að nefna aukalagið, sem var Ave María eftir Sigvalda Kaldalóns í útsetningu hljómsveitarstjórans, Luis Aguirre. Það var gætt viðeigandi andakt. Hljóðfæraútsetningin umvafði sönginn einkar fallega og lyfti honum upp í hæstu hæðir.

Sonos Ensemble stóð sig ágætlega á tónleikunum. Sellóið var að vísu ekki alveg hreint í byrjun, en svo lagaðist það. Það var einmitt mjög fallega leikið sellósóló í millispili úr óperunni Goyescas eftir Granados. Í heild var leikur allra agaður og nákvæmur, en líka kraftmikill og glæsilegur þegar við átti. Þetta var góður endir á metnaðarfullri sönghátíð sem verður betri og betri með hverju árinu.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s