Drottning hljóðfæranna í misflottum fötum

Niðurstaða: Misáhugaverð dagskrá og misáhugaverðar útsetningar, en flutningurinn var góður.

Alexandra Chernysova og Lenka Mátéóva fluttu verk eftir Chernysovu, Franck, Rakhmanínoff og Mozart.

Hallgrímskirkja

laugardaginn 23. júlí

Nítjándu aldar tónskáldið Cesar Franck fékk það einu sinni óþvegið hjá gagnrýnanda. Í umsögninni stóð að myrkrið í tilteknu verki hefði verið svo algert að það hefði verið hægt að teikna á það hvítar línur með kolamola.

Víst er að tónlist Francks er mjög alvarleg. Í henni er oft það sem kalla mætti kaþólska trúarvímu, líka í veraldlegum verkum. Hið fræga Panis Angelicus er engin undantekning, en þar er textinn er eftir kirkjufræðara á þrettándu öld, heilagan Tómas Akvínas.

Andaktug tónlist

Verkið var flutt af Alexöndru Chernyshovu sópran og Lenku Mátéóvu orgelleikara á hádegistónleikum í Hallgrímskirkju á laugardaginn. Heilagur Tómas segist vona í textanum að brauð englanna, sem er Kristur, verði líka að fæðu mannkyns. Í samræmi við þessi orð er mikil andakt í tónlistinni. Vandaður flutningurinn skilaði stemningunni prýðilega til áheyrenda.

Söngurinn var bjartur og einbeittur, víbratóið smekklegt og túlkunin full af tilfinningu. Orgelleikurinn var sömuleiðis skýr og nákvæmur. Mismunandi raddir hljóðfærisins voru í ágætu innra samræmi og heildarhljómur söngraddar og orgels var sannfærandi.

Cantabile (sem þýðir syngjandi), úr Þremur stykkjum (Trois piéces) eftir Franck var einnig á dagskránni. Þar lék Mátéóva ein. Spilamennskan var einstaklega falleg, í senn fáguð og litrík, túlkunin djúp og virðuleg. Ólíkar raddir orgelsins mynduðu áhrifaríkar andstæður sem aftur sköpuðu tilkomumikla heildarmynd, syngjandi fagra.

Of drungalegt

Nokkuð síðri voru Vókalísa Rakhmanínoffs og Vögguvísa eftir Alexöndru. Orgelið hefur verið kallað drottning hljóðfæranna, enda í rauninni heil sinfóníuhljómsveit. Það breytir því ekki að sum tónlist passar því engan veginn. Vögguvísan, sem heyra má á YouTube, er þar leikin á tréblásturhljóðfæri. Afmarkaðir, kroppaðir hörputónar vefjast svo um þokukenndan blásturinn og mynda þannig skemmtileg blæbrigði. Engu slíku var til að dreifa hér. Hljómur orgelsins var of þungur og dökkur til að tónlistin kæmist almennilega á flug.

Sömu sögu er að segja um Vókalísuna eftir Rakhmanínoff. Undirleikurinn er upphaflega fyrir píanó, og tærir hljómar þess mynda fallegan ramma utan um tilfinningaþrunginn sönginn. Hér voru þyngslin í orgelinu svo mikil að laglínan varð fremur draugaleg – sem passaði henni illa.

Rödd geldingsins

Hið glaðlega Hallelúja úr Exsultate Jubilate eftir Mozart var af allt öðrum toga. Mozart samdi tónsmíðina táningur að aldri á meðan verið að var að setja upp óperuna hans, Lucio Silla. Í einu aðalhlutverkinu þar var geldingur, en þeir voru algengir í tónlistarlífinu í den. Það þótti sko ekkert tilkomumál að skera undan drengjum sem voru efnilegir söngvarar, áður en þeir urðu kynþroska með tilheyrandi dýpkun raddarinnar. Geldingurinn í óperunni söng stórkostlega að mati Mozarts, og því samdi hann téða tónlist fyrir hann.

Alexandra stóð sig glæsilega hér og sömu sögu er að segja um organistann.  Söngurinn var dillandi, og hraðar trillur orgelsins glitruðu. Óneitanlega var það flottur endir á tónleikunum – sem var síður en svo geldingslegur.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s