
Niðurstaða: Magnaðir tónleikar sem einkenndust af smekkvísi og fagmennsku.
Ásta Soffía Þorgeirsdóttir harmóníkuleikari og Guðný Einarsdóttir orgelleikari fluttu blandaða dagskrá
Hallgrímskirkja
laugardagur 30. júlí
Í brandara á Facebook má sjá umsátur um kastala. Árásarherinn hendir harmóníku yfir virkisveginn. Þá flýja allir út æpandi, líka dýrin.
Ef Ástu Soffíu Þorgeirsdóttur yrði hent yfir vegginn á eftir harmóníkunni, þá myndi enginn flýja úr kastalanum. Hún kom fram á hádegistónleikum í Hallgrímskirkju, ásamt Guðnýju Einarsdóttur orgelleikara, og spilaði undurvel á harmóníkuna.
Lágstemmd dagskrá
Tónleikarnir voru skemmtilegir, þótt þeir væru allan tímann fremur lágstemmdir. Engin rismikil tónlist var flutt. „Gamall fjallakofasálmur“ eftir Oskar Lindberg sótti samt í sig veðrið eftir því sem á leið. Það gerðist líka ýmislegt í prelúdíu og litlum keðjusöng í þremur spunum eftir Nadiu Boulanger. Framvindan var spennuþrungin og litrík. En maður hefur oft orðið vitni að tryllingslegri hápunktum þegar risaorgelið í Hallgrímskirkju er annarsvegar.
Dagskráin hófst á tveimur dansþáttum úr franskri svítu nr. 5 eftir Johann Sebastian Bach. Hvor þáttur, Allemande og Courante, skiptist í tvo hluta. Þeir eru báðir endurteknir eftir fyrirmælum tónskáldsins. Þær Guðný og Ásta skiptu endurtekningunum á milli sín og það kom ótrúlega vel út. Stærðarmunurinn á hljóðfærunum er auðvitað gríðarlegur, en samt var samtalið á milli þeirra afar heillandi. Hið litla og stóra bætti hvort annað upp, heildarmyndin var falleg og ljúf. Það var eins og lítið barn ætti í samtali við afa gamla, sem var náið og þrungið kærleika og hlýju.
Eins og ástaratlot
Í næsta atriði var meira samspil, þ.e. leikið var á hljóðfærin á sama tíma, en ekki sitt á hvað. Þetta var Kvöldkyrrð eftir Jónatan Ólafsson. Samtal hljóðfæranna hér var ennþá nánara, kannski eins og ástaratlot. Þau voru dálítið fínleg en samhljómurinn var samt fullkominn. Harmóníkuleikurinn var vandaður og nákvæmur, en líka brothættur, og orgelið umvafði hann án þess að trana sér fram. Saman mynduðu hljóðfærin blæbrigðaríka heildarmynd.
Á eftir þessu flutti Ásta tónsmíð sem bar nafnið Sem ljúfur draumur eftir Vilhelmínu Baldvinsdóttur. Tónlistin var fremur slagarakennd, laglínurnar voru grípandi og sætar, og stemningin í heild innileg og sjarmerandi.
Næstu tvo verkin lék Guðný ein, eftir Linderg og Boulanger sem fyrr hefur verið minnst á. Þau voru prýðilega flutt, raddvalið var sannfærandi og leikurinn agaður og nostursamlegur. Tónlistin var tignarleg og innihaldsrík, og einlæg túlkun Guðnýjar, full af tilfinningu, kom henni ágætlega til skila.
Innhverft og dreymandi
Maður bjóst kannski við flugeldasýningu í lokin, eins og oft á tónleikum, en svo var ekki. Nei, boðið var upp á innhverft og dreymandi lag eftir tangókónginn Astor Piazzolla, Tanti Anni Prima eða Endur fyrir löngu. Tónlistin einkenndist af ljúfsárri nostalgíu, og aftur blönduðust hljóðfærin fullkomlega saman. Raddval orgelleikarans hentaði harmóníkunni prýðilega, svo jafnvægið á milli hljóðfæranna var eins og best verður á kosið.
Ég hef ekki áður heyrt þessi tvö hljóðfæri saman á tónleikum og verður að segjast eins og er að viðburðurinn kom ánægjulega á óvart. Þetta var einfaldlega frábært.