Misjafn tónlistarflutningur

Niðurstaða: Fróðleg dagskrá en tónlistarflutningurinn olli vonbrigðum.

Verk eftir Schumann. Hlín Pétursdóttir Behrens og Erna Vala Arnardóttir fluttu.

Eldborg í Hörpu

sunnudaginn 7. ágúst

Einn brandari á netinu hljómar svo: „Þegar ég var greindur með geðhvarfasýki vissi ég ekki hvort ég átti að hlæja eða gráta.“ Tónskáldið Robert Schumann fékk einmitt þessa greiningu, en þó ekki fyrr en löngu eftir dauða sinn. Lengi var talið að hann hefði verið með geðklofa, eða schizophreniu. En svo var það lærður geðlæknir, Hans Gruhle, sem afgreiddi málið 50 árum eftir dauða Schumanns, kvað úr um að hann hefði verið með geðhvarfasýki. Hann hélt því líka fram að hann hafi þjáðst af lokastigi sárasóttar, sem getur m.a. valdið heilabilun.

Víst er að tónlist Schumanns er mjög öfgakennd, og sönglögin sem flutt voru á tónleikum í Eldborg í Hörpu á sunnudaginn voru full af tilfinningum. Tónleikarnir voru hluti af árlegri tónlistarhátíð sem nefnist Seigla. Að þessu sinni kom fram Hlín Pétursdóttir Behrens sópran og Erna Vala Arnardóttir píanóleikari. Áheyrendur sátu á sviðinu og horfðu út í sal, sem var óvanalegt.

Sjóðandi heitt stjörnupar

Yfirskrift tónleikanna var Hjónabandssæla. Robert og Clara Schumann voru eitt helsta stjörnupar tónlistarsögunnar. Þau voru samherjar, hann tónskáldið en hún heimsfrægur píanóleikari. Hún var reyndar tónskáld líka og samdi forkunnarfagra tónlist, en það er önnur saga. Á milli atriða sögðu þær Hlín og Erna frá ýmsu úr lífi hjónanna, hvernig sambandið þeirra var og hvað þau skrifuðu í dagbækur sínar. Það var mjög skemmtilegt og fróðlegt og kitlaði oft hláturtaugar áheyrenda, undirritaðs þar á meðal.

Misheppnuð túlkun

Þetta eru góðu fréttirnar. Þær slæmu eru að sjálfur tónlistarflutningurinn var ekkert til að hrópa húrra fyrir. Söngur Hlínar var afskaplega takmarkaður. Röddin var mjó og veikburða, tilfinningarnar í skáldskapnum sem tónlistin átti að miðla skiluðu sér engan veginn til áheyrenda. Túlkunin var rislítil og risti heldur ekki djúpt. Lögin, sem voru öll eftir Schumann, voru úr ýmsum áttum og fjölluðu um margvíslegar hliðar ástarinnar, en það var ekki að heyra hér. Þvert á móti var söngurinn alltaf eins, þar var engin fjölbreytni, ekkert ímyndunarafl.   

Erna Vala spilaði ágætlega á píanóið í sönglögunum, en píanóröddin þar er svo sem ekki mjög krefjandi. Miklu verri var einleikur hennar í þremur fantasíum úr Kreisleriana eftir Schumann, en hann var hreint alls ekki fullnægjandi. Fantasíurnar voru nr. 5, 6 og 7 og einkenndust af minnisgloppum og óöryggi í flutningi. Sú síðasta, mjög hröð, var verst, auk þess sem Erna Vala sleppti að spila seinni helming hennar. Útkoman var alls ekki góð. Þetta er synd því ég hef heyrt báðar listakonurnar í flottu formi, og því er ljóst að þær geta gert mun betur.  

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s