
Niðurstaða: Innblásin tónlist, innblásin spilamennska.
Tónlist eftir Inga Bjarna á Djasshátíð Reykjavíkur. Fram komu Ingi Bjarni, Anders Jormin, Hilmar Jensson og Magnús Trygvi Eliassen.
Flói í Hörpu
fimmtudaginn 18. ágúst
Rokktónlistarmaðurinn spilar þrjá hljóma fyrir þúsund áheyrendur, en djassarinn spilar þúsund hljóma fyrir þrjá áheyrendur. Þessi brandari er lýsandi fyrir það hve djassinn er miklu þróaðri og fjölbreyttar en rokkið, en líka hve hið síðarnefnda er vinsælt. Brandarinn átti þó ekki við um tónleika á Djasshátíð Reykjavíkur sem haldnir voru í Flóanum í Hörpu á fimmtudagskvöldið. Þar var talsverður fjöldi áheyrenda, og mikil stemning í salnum með áköfum fagnaðarlátum.
Listamennirnir sem fram komu áttu það fyllilega skilið. Tónlistin var öll eftir píanóleikarann, sem kallaði sig einfaldlega Inga Bjarna. Hann er ungur að árum og undirritaður minnist þess ekki að hafa rekist á hann áður í tónlistarlífinu. Segjast verður eins og er að tónlist hans var sérlega áhrifamikil. Hún var skemmtilega frjálsleg, með grípandi tónahendingum og gædd seiðandi stemningu. Framvindan í henni kom stöðugt á óvart og hljómarnir, kannski ekki alveg þúsund talsins, voru safaríkir og spennandi.
Áhugaverður píanóleikur
Píanóleikurinn sjálfur var líka góður. Sum hröðu tónahlaupin hefðu kannski mátt vera skýrari og glæsilegri, en í það heila var spilamennskan bæði tilfinningaþrungin og vönduð. Á einum tímapunkti lék Ingi Bjarni fjölradda, þ.e. eina laglínu með annarri hendinni og allt aðra með hinni, en laglínurnar tvær hljómuðu fullkomlega saman. Margt fleira áhugavert gat að heyra í hrynjandinni í píanóleiknum, í tónmótuninni, áslættinum, stígandinni og litbrigðunum. Þetta var flott.
Eins og títt er um djassin þá var töluvert leikið af fingrum fram, og það var ferskt, jafnvel hnyttið, og alltaf athyglisvert. Gamla kempan frá Svíþjóð, Anders Jormin á kontrabassa, var frábær. Hann hristi allskonar blæbrigðaríkar strófur fram úr erminni, aðallega plokkaðar, en líka með boga. Rödd bassans var skemmtilega rám og hrá, en aldrei þannig að það kæmi niður á gæðunum.
Unaðslegur samhljómur
Hinir hljóðfæraleikararnir voru líka magnaðir. Trommuleikur Magnúsar Trygvason Eliassen var einhver sá besti sem heyrst hefur á íslenskum djasstónleikum. Leikur hans var snarpur, en jafnframt fullur af smitandi léttleika. Útkoman var kliðmjúk og lifandi, og rann einstaklega fallega saman við leik hinna hljóðfæraleikaranna.
Hilmar Jensson á gítar var sömuleiðis framúrskarandi. Spilamennskan hans var glitrandi og áleitin í senn, ýmist áferðarfögur eða framúrstefnuleg og tilraunakennd, en aldrei þannig að það skemmdi heildarsvipinn. Enga tilgerð var þar að finna.
Og talandi um heildarmyndina þá var hún svo vel samstillt og jafnvægið í hljóðkerfinu það gott að vart er hægt að gera betur. Fjórmenningarnir léku sem einn maður, líkt og þeir hefðu gert það árum saman. Þetta var snilld.