
Niðurstaða: Tónlistin kom afar illa út í alltof ríkulegum hljómburði Hallgrímskirkju.
Sálumessa eftir Jakob Buchanan. Flytjendur voru Ragnheiður Gröndal, Club for Five, Ensemble Edge, Cantoque Ensemble, Hilmar Jensson, Anders Jormin, Magnús Trygvason Eliassen og Jakob Buchanan. Geir Lysne stjórnaði.
Hallgrímskirkja
föstudagur 19. ágúst
Sagt hefur verið að í fínu lagi sé að koma of seint á tónleika í Hallgrímskirkju. Maður heyri samt fyrst tónana. Með þessu er verið að vísa í bergmálið í kirkjunni, sem er allt of mikið fyrir ákveðnar tegundir tónlistarflutnings. Stórar hljómsveitir hljóma ekki vel þar og enn er mér í fersku minni þegar níunda sinfónía Beethovens misheppnaðist gersamlega. Hljómburðurinn skrumskældi tónlistina svo að hún varð að illskiljanlegum óskapnaði.
Requiem, eða sálumessa eftir Jakob Buchanan, sem flutt var á Djasshátíð Reykjavíkur á föstudagskvöldið, var því miður þessu marki brennd. Hljómburðurinn bjagaði verkið svo mjög að í rauninn var erfitt að átta sig á gæðum tónlistarinnar.
Bland í poka
Verkið var einhvers konar bland í poka, þar brá fyrir Gregorsöng, klassík, djassi og jafnvel poppi. Djassinn átti þó yfirhöndina; Stórsveit Reykjavíkur spilaði með kór og einsöngvara og inn á milli voru svokölluð sóló eins og títt er um djassinn.
Kórtextinn var á latínu, hefðbundinn sálumessa rómversk-kaþólsku kirkjunnar sem kórinn söng yfirleitt af öryggi. Inn á milli voru svo persónulegri hugleiðingar á ensku um merkingu hvers kafla. Ragnheiður Gröndal söng hugleiðingarnar og gerði það í sjálfu sér ágætlega. Rödd hennar var þýð og mjúk, tilfinningin í túlkuninni sannfærandi. Útkoman í heild var dálítið annarsheimsleg eins og hún átti væntanlega að vera. En það var ekki nóg. Alltof mikil endurómunin gerði að verkum að maður gat lítið notið söngsins.
Misgóð sóló
Sólóin komu misjafnlega út. Lúðrablástur Jakobs Buchanan var ómþýður en ekki alltaf hreinn. Kontrabassi Anders Jormin var hins vegar hnitmiðaður og flottur; sömu sögu er að segja um gítarleik Hilmars Jenssonar. En trommuleikur Magnúsar Trygvason Eliassen var allt að því fáránlegur, sem var vissulega ekki honum að kenna. Nei, það var bergmálið sem lét tónana renna saman í drafandi drullupoll, miður kræsilegan.
Stórsveitin spilaði prýðilega, en aftur var það alltof mikið bergmál sem olli því að leikurinn varð að lítt sjarmerandi gný. Samspil kórsins og hljómsveitarinnar var líka mjög gruggugt.
Fábrotin umgjörð best
Eins og áður sagði er erfitt að meta almennilega gæði tónlistarinnar. Hún fékk verðlaun þegar hún kom út á sínum tíma, svo eitthvað hlýtur hún að hafa til brunns að bera. Hér kom verkið hins vegar best út þegar umgjörðin var fábrotin, bara söngur Ragnheiðar við undirspil eins eða tveggja hljóðfæra. Þar voru melódíurnar svo sannarlega fallegar og stemningin draumkennd og ljúf. Því miður voru slíkir kaflar of fáir.
Gaman hefði verið að heyra tónlistina eins og hún var upphaflega hugsuð. Greinilega voru það mistök að flytja hana í Hallgrímskirkju; afhverju varð Harpa ekki fyrir valinu?