
Niðurstaða: Skemmtileg sýning með flottum söng
Mærþöll. Tónlist og texti: Þórunn Guðmundsdóttir. Leikstjórn: Bjarni Thor Kristinsson. Hljómsveitarstjórn: Guðni Franzson.
Gamla bíó
fimmtudagur 1. september
Tónskáldið Frederic Chopin, sem var uppi á fyrri hluta nítjándu aldar, var einstaklega trúgjarn. Hann frétti af svokallaðri „talandi maskínu“ og skrifaði ákafur til foreldra sinna að vélin gæti víst ekki bara talað, heldur sungið mjög vel. Svo bætti hann við: „Ef óperustjórnendur gætu haft mörg svona vélmenni, þá gætu þeir losnað við kórsöngvara, sem kosta fúlgur fjár og eru endalaust til vandræða.“
Í Mærþöll, nýrri óperu eftir Þórunni Guðmundsdóttur, sem frumsýnd var á fimmtudaginn í Gamla bíói, var enginn kór, en töluvert um samsöngsatriði. Þau voru sum býsna flókin. Ekki var að heyra að neinn söngvari væri „endalaust til vandræða“ og því varla þörf á vélsöngvara. Samsöngurinn var hreinn, nákvæmur og fullur af krafti.
Grætur gulltárum
Óperan fjallar um hertogahjón sem geta ekki eignast barn, en þá koma álfkonur og bjarga málunum. Dóttirin sem fæðist, Mærþöll, er ekki alveg eins og fólk er flest, því hún getur grátið gulltárum. Þetta kemur sér vel síðar er hertoginn verður blankur; þá er ekkert annað en að klípa Mærþöll svo hún fari að hágráta. Verst er að hún er svo glaðlynd að hún grætur eiginlega aldrei, og svo er hún fljót að hlaupa undan töngum hertogans.
Eins og sjá má er þetta gamanópera, og margt í henni var mjög fyndið á frumsýningunni. Álfkónurnar þrjár, tvær góðar en ein ekki svo góð, því henni tókst ekki að ná sér í karlmann, voru kostulegar. Þær voru leiknar af Lilju Guðmundsdóttur, Heiðdísi Hönnu Sigurðardóttur og Erlu Dóru Vogler. Söngur þeirra var flottur, og svo höfðu þær allar svo mikinn sjarma að maður horfði á þær dáleiddur.
Björk var mögnuð
Mærþöll var leikin af Björk Níelsdóttur sópran og var mögnuð. Björk er ein besta söngkona landsins, rödd hennar var tær og hljómmikil í senn og leikurinn var skemmtilegur. Gunnlaugur Bjarnason var Pétur prins, og hann söng af grípandi tilfinningu og lék afar vel. Þegar hann missti vitið um stund var það svo sannfærandi að það væri eiginlega „krípí“.
Svipaða sögu er að segja um frammistöðu hinna söngvaranna; Eyjólfs Eyjólfssonar, Þórgunnar Önnu Örnólfsdóttur, Hönnu Dóru Sturludóttur, Halldóru Ósk Helgadóttur, Ólafs Freys Birkissonar og Bjarna Thors Kristinssonar. Sá síðastnefndi var líka leikstjóri sýningarinnar og hefur tekist prýðilega að gera hana heilsteypta og flæðandi. Þar var hvergi dauður punktur. Búningar og leikmynd voru auk þess augnayndi.
Gamaldags leikhústónlist
Tónlistin var í hefbundnum dúr og moll, og mjög lagræn. Hún var dálítið einsleit og líka ögn einfeldningsleg, kannski í stíl við gamaldags leikhústónlist. Líbrettóið, það er textinn, var einnig eftir Þórunni, og var hann hnyttinn og oft sérlega fyndinn.
Lítil hljómsveit lék undir, oktett sem Guðni Franzson stjórnaði af öryggi og festu. Jafnvægi á milli hljómsveitar og söngs var eins og best var á kosið.
Í heild var þetta því ágæt sýning. Helsti gallinn var að stundum var erfitt að greina hvað söngvararnir voru að syngja um og hefði textavél verið til mikilla bóta. Jafnframt hefði mátt vera meira um söguþráðinn í leikskránni, sem var í skötulíki. En það var gaman að koma í Gamla bíó, þar sem Íslenska óperan sleit barnskónum. Þaðan á maður svo sannarlega margar góðar minningar.