Maður gleymdi stund og stað á tónleikum Trifonovs

Niðurstaða: Trifonov var hreint út sagt ótrúlegur.

Tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Verk eftir Beethoven, Sibelius og Önnu Þorvaldsdóttur. Stjórnandi: Eva Ollikanine. Einleikari: Daniil Trifonov.

Einnig einleikstónleikar Trifonovs. Verk eftir Tsjajkovskí, Schumann og Brahms.

Eldborg í Hörpu

Fimmtudagur 8. september og laugardagur 10. septemer

Beethoven var sjálfur í einleikshlutverkinu þegar fjórði píanókonsertinn hans var frumfluttur. Tveir drengir stóðu sitt hvorum megin við hann og héldu á kertum. Beethoven spilaði með miklum tilþrifum, og sveiflaði höndum alltaf upp í loft er hann hafði lokið við sólóin. Eitt sinn sló hann kertin óvart út höndunum á skelfingu lostnum drengjunum, svo þau flugu út í sal. Áheyrendur skelltu upp úr.

Ekkert svona gerðist á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið. Rússneski píanósnillingurinn Daniil Trifonov lék einleik í áðurnefndum konsert. Hann var frekar prúður og laus við tilgerð. Engu að síður var verkið stórkostlegt í meðförum hans.

Trifonov er um þrítugt og varð stjarna árið 2011 er hann vann fyrstu verðlaunin í Tsjajkovskí keppninni í Moskvu. Líklega er það harðasta tónlistarkeppnin. Sjálfur Vladimir Ashkenazy varð einmitt frægur þegar hann vann fyrstu verðlaunin í þessari keppni árið 1962. Hann deildi þeim reyndar með John Ogdon, en það er önnur saga.

Hristi þau fram úr erminni

Trifonov hefur greinilega verið duglegur að æfa tónstiga þegar hann var lítill. Hann hristi fram úr erminni óteljandi tónarunur og hlaup eins og ekkert væri. Fjórði konsertinn eftir Beethoven er þó ekki einhver yfirborðsleg froða. Nei, hann er einstaklega fallegur, þrunginn höfugri náttúrustemningu sem hittir mann beint í hjartastað. Túlkun einleikarans var sterk; tilfinningarnar voru óheftar og hamslausar. Til dæmis var kadensan í fyrsta kaflanum svo hrífandi að maður gleymdi stund og stað. Hvílíkir hápunktar!

Hljómsveitin spilaði líka afar vel undir öruggri stjórn Evu Ollikaninen. Hún fylgdi einleikaranum af kostgæfni. Hvassar strengjahendingarnar í byrjun hæga kaflans voru einkar áhrifaríkar. Konsertinn í heild var veisla fyrir eyrað sem lengi verður í minnum höfð.

Dulúðugir hljómar

Annað á efnisskránni var líka flott. Nýtt verk eftir Önnu Þorvaldsdóttur, ARCHORA, var seiðandi. Það var mjög í stíl við annað sem hún hefur samið. Tónmálið var myrkt og annarlegt. Mikið var um langa, dulúðuga hljóma og skrýtnar, hraðar tónahendingar, oft frá trébláusurunum. Jafnframt var rennerí eftir strengjunum áberandi. Þetta var þó ekki bara einhver endurtekning, heldur djúpur skáldskapur sem stigmagnaðist. Anna er að þroskast sem tónskáld og tónlist hennar er stöðugt að vaxa að innihaldi og innblæstri.

Einnig ber að nefna Egmont forleikinn eftir Beethoven og svo sjöundu sinfóníuna eftir Sibelius. Hvort tveggja var fínt, sérstaklega var sinfónían glæsileg og tilkomumikil. Samspil ólíkra hljóðfærahópa var fullkomið og túlkunin í heild spennuþrungin.

Einleikstónleikar

Tveimur dögum síðar kom Trifonov fram aftur, en þá hélt hann einleikstónleika. Svo ég leyfi mér að vera persónulegur, þá var ég hálffúll út í hann fyrir að breyta um efnisskrá. Hann ætlaði að spila Gaspard de la nuit eftir Ravel og fimmtu sónötuna eftir Skrjabín eftir hlé. En hann breytti því óvænt í þriðju sónötuna eftir Brahms. Það er bara alls ekki góð tónsmíð.

Brahms var auðvitað snillingur sem samdi margt alveg dásamlegt. Þriðja sónatan er hins vegar æskuverk. Tónskáldið var ekki búinn að taka út fullan þroska sem listamaður. Sónatan á samt góða spretti. Annar kaflinn er ljóðrænn og fallegur og þriðji kaflinn skemmtilegur. Fyrsti kaflinn er aftur á móti óttalega yfirborðslegur, aðallega reykur án elds. Verstur er þó síðasti kaflinn, sundurlaus og illa skrifaður, eiginlega hálfgerður glundroði ef svo má segja.

Auðvitað lék Trifonov verkið afar vel, af aðdáunarverðu öryggi og snerpu, en það breytti engu. Maður býr ekki til silkipoka úr svínseyra eins og enskt máltæki segir.

Schumann var hápunkturinn

Miklu meira var varið í tónleikana fyrir hlé. Fyrra verkið var Myndabók æskunnar eftir Tsjajkovskí sem samanstóð af tuttugu og fjórum smástykkjum Þetta eru barnalög og alls ekki erfið tæknilega. Engu að síður eru þau ljóðræn, hvert á sinn hátt. Túlkun Trifonovs var einlæg og blæbrigðarík, full af stemningu.

Fantasían í C-dúr eftir Schumann var svo hápunktur dagskrárinnar. Hún var stórbrotin í meðförum píanóleikarans. Þar voru ýmist yfirgengilegar tónasprengjur eða draumkenndir, hrífandi  kaflar. Þeir voru svo hástemmdir að það var helber unaður. Rauði þráðurinn slitaði aldrei, flæðið í tónlistinni var ótrúlega sannfærandi. Þetta var snilld.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s