Sinfóníutónleikar fóru úr böndunum

Niðurstaða: Einstakur einsöngur og hljómsveitin var líka með allt á hreinu.

Verk eftir Ives, Mozart, Bernstein og Dvorák í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Einsöngvari: Dísella Lárusdóttir. Stjórnandi: David Danzmayr.

Eldborg í Hörpu

fimmtudaginn 14. september

Þetta er farið úr böndunum, hugsaði ég á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið. Ætti ég að hringja á lögregluna?

Tilefnið var hin svokallaða Nýja-Englandssinfónía eftir Charles Ives, sem var fyrst á efnisskránni. Annar kaflinn af þremur dró upp mynd af ungum manni sem skemmtir sér við hátíðahöld á fjórða júlí. Hann heldur svo út á akur og leggst til hvíldar, sofnar og dreymir senur úr frelsisstríðinu. Hann veit ekki að einmitt þarna höfðu hermenn úr þessu stríði löngu áður dvalið veturlangt.

Ærandi ringulreið

Tónlistin var ofsafengin, og stundum með ólíkum þráðum sem blönduðust saman í ærandi ringulreið, svo að manni þótti nóg um. Á góðan hátt þó. Flutningur hljómsveitarinnar, undir sérlega markvissri og líflegri stjórn Davids Danzmayr, var dásamlega snarpur, fjörugur og kraftmikill.

Ives þótti gaman að blanda saman mismunandi tónlist svo úr varð áhugaverður, en ómstríður hljómur. Þetta mátti líka heyra í hinum köflunum, sérstaklega hinum fyrsta. Það er því skemmtilegt að geta þess að eiginkona Ives hét Harmony, sem þýðir samhljómur.

Tær og fágaður          

Næst á dagskrá steig Dísella Lárusdóttir sópran fram á sviðið og söng fyrst aríu úr Brottnáminu úr kvennabúrinu eftir Mozart. Hún gerði það ákaflega fallega. Söngurinn var tilþrifamikill og áleitinn, fullkomlega tær og fágaður, en samt kröftugur. Trillurnar í söngnum á tveimur lykilstöðum í aríunni voru sérstaklega flottar.

Síðasta lagið fyrir hlé var Glitter and be Gay úr óperunni Birtingi eftir Leonard Bernstein. Þar lék Dísella glansdrós sem má muna sinn fífill fegri, en nýtur samt ennþá lífsins lystisemda. Þetta er grínatriði og Dísella fór á kostum. Svipbrigðin hennar voru svo fyndin að ég skellti upp úr aftur og aftur. Söngurinn sjálfur var einstaklega spennandi og glæsilegur, á köflum brjálæðislegur og með stórfenglegum hápunktum. Áheyrendur æptu bókstaflega þegar flutningurinn var búinn. Aukalagið var líka fagurt, eitt af Wesendonck ljóðunum eftir Wagner.

Lifandi og innblásin

Eftir hlé var níunda sinfónían eftir Dvorák á dagskránni. Hún er mjög stórbrotin og er innblásin af veru tónskáldsins í Bandaríkjunum um nokkurra ára skeið. Tónlistin skartar afar grípandi melódíum, og framvindan í henni er hröð (nema í hæga kaflanum) og alltaf áhugaverð.

Skemmst er frá því að segja að leikur hljómsveitarinnar var í fremstu röð. Strengirnir voru hnausþykkir og munúðarfullir, málmblásararnir hnitmiðaðir; svipaða sögu er að segja um aðra hljóðfærahópa. Stjórn Danzmayr var í senn tæknilega fullkomin og svo lifandi og innblásin að varla er hægt að gera betur. Þetta voru magnaðir tónleikar og maður bókstaflega sveif út í nóttina á eftir.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s