Hið smáa sagði heila sögu

Niðurstaða: Vandaðir og skemmtilegir tónleikar

Habanera. Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir flutti blandaða dagskrá ásamt Francisco Javier Jáuregui gítarleikara og Sigurði helga Oddsyni píanóleikara.

Salurinn í Kópavogi

fimmtudagur 22. september

„Ef hægt væri að ímynda sér að hans hátign, Satan, myndi semja óperu, þá væri Carmen í þeim anda.“ Á þessum orðum hófst gagnrýni um hina sívinsælu óperu eftir Bizet, og birtist hún í Music Trade Review árið 1878. Gagnrýnandinn fann óperunni allt til foráttu, honum fannst hún siðlaus og aðalpersónurnar fráhrindandi.

Verkið fjallar um vafasama lágstéttarkonu sem með kynþokka sínum ógnar lífi virðulegs, heldri manns. Þetta heyrist í tónlistinni, söngur Carmenar, sem er sígaunakona með fortíð, er í óljósri tóntegund, þ.e. laglínurnar ferðast gjarnan upp og niður svonefndan krómatískan tónstiga. Þannig skapast óvissa, hlustandinn veit ekki alveg hvar hann hefur Carmen, hún verður því vafasöm í huga hans. Þar að auki er söngur hennar skreyttur danshrynjandi sem dregur athyglina að fögrum líkama hennar, enda er dans fyrst og fremst list líkamans.

Dansinn frá Havana

Frægasta atriðið í Carmen nefnist Habanera, þ.e. dans frá Havana á Kúbu. Habanera var yfirskrift tónleika nýrrar tónleikaraðar sem hóf göngu sína á miðvikudagskvöldið. Röðin ber ber heitið Syngjandi í Salnum. Að þessu sinni hóf Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran upp raust sína og var allur seinni hluti tónleikanna helgaður habanerum eftir mismunandi tónskáld. Lokaatriðið var einmitt arían fræga úr Carmen.

Tónleikarnir voru vandaðir. Guðrún Jóhanna hefur ekki mikla rödd sem sprengir í manni hljóðhimnurnar, en hún er fínleg og blæbrigðarík. Söngkonan kann þá list að láta hið smáa segja heila sögu; túlkun hennar var ávallt merkingarþrungin og hrífandi.

Þar sem allir draumar rætast

Habanerurnar eftir hlé voru margvíslegar, stundum dramatískar, eða gæddar ljúfsárri eftirsjá. Hið síðarnefnda má t.d. segja um Vocalise-etude en forme de habanera eftir Ravel, og líka Cancion de cuna para dormir a un negrito eftir Montsalvatge.

Youkali eftir Kurt Weill var svo fullt af sannfærandi þrá eftir útópíu þar sem allir draumar rætast, og Habaneran úr Carmen var bráðskemmtileg. Ekki síst fyrir það að heilt gengi af söngvurum meðal áheyrenda tók óvænt þátt í viðlaginu, sem var drepfyndið. Sigurður Helgi Oddson spilaði með á píanó og gerði það af vandvirkni og viðeigandi léttleika.

Flottur gítarleikur, flottar útsetningar

Fyrri hluti tónleikanna var ekki síðri. Þar var meðleikari Guðrúnar Francisco Javier Jáuregui, sem spilaði á gítar. Hann átti líka meira í dagskránni, því útsetningarnar fyrir hlé voru velflestar eða allar eftir hann. Þær voru fjölbreyttar og lifandi.

Fyrst fluttu þau þrjú lög eftir Atla Heimi Sveinsson sem runnu ljúflega niður. Aðalatriðið í þessum hluta efnisskrárinnar var hins vegar nokkur bandarísk þjóðlög; m.a. Black is the Color, I Wonder as I Wander og Wayfaring Stranger. Þau komu einstaklega vel út.

Söngurinn var afar tjáningaríkur og fallega viðkvæmur. Gítarleikurinn var ekki bara einhver grip, heldur myndaði áhrifamikið, fjölradda mótvægi við sönginn, fléttaðist um hann og lyfti upp í hæstu hæðir. Gítarleikarinn fór beinlínis á kostum, og það gerði söngkonan líka. Útkoman var sjaldheyrður unaður.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s