Brjálæðislegt vorblót og gjöreyðing mannkyns

Niðurstaða: Tónleikarnir voru misjafnir fyrir hlé en svo rættist úr.

Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti verk eftir Önnu Þorvaldsdóttur, Veronique Vöku, Daníel Bjarnason og Igor Stravinskí. Einleikari: Sæunn Þorsteinsdóttir. Stjórnandi: Eva Ollikainen.

Eldborg í Hörpu

Fimmtudaginn 29. september.

Tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið byrjuðu skuggalega. Flutt var Catamorphosis eftir Önnu Þorvaldsdóttur undir stjórn Evu Ollikainen. Nafn verksins er myndað úr tveimur orðum, catastrophe eða katastrófu og metamorphosis, þ.e. umbreytingu. Innblásturinn mun vera gjöreyðing mannkyns ef ekkert verður gert í umhverfismálum.

Tónlistin var heillandi. Hún byrjaði á hálfgerðri ringulreið, á sársukafullum hljómum sem líkt og misstu fókusinn í hvívetna. Smám saman birti þó til og var það ákaflega áhrifamikið. Hljómarnir voru ekki af þessum heimi, stefbrot og hendingar voru grípandi. Magnþrungin undiralda skapaðist sem var alveg einstök. Útkoman var vímukenndur tónaseiður sem hitti beint í mark.

Langloka sem komst ekki á flug

Næsta tónsmíð var ekki eins spennandi. Þetta var sellókonsert eftir Veronique Vöku og var Sæunn Þorsteinsdóttir í einleikshlutverkinu. Hugmyndin að tónlistinni mun hafa vaknað þegar tónskáldið sá gamalt kort af Síðujökli og bar það saman við ástand hans í dag. Tónlistin fjallaði því um svipað og fyrrnefnda verkið, en var bara ekki eins kjarnyrt. Í staðinn var hálfgerð langloka gruggugra hljóma sem virtust aldrei hafa neinn sérstakan tilgang. Það var eins og tónskáldinu lægi ekki neitt á hjarta.

Einleikurinn var góður sem slíkur, Sæunn spilaði yfirleitt af nákvæmni, en það hafði lítið að segja. Hvergi voru laglínur, hvergi var nein markverð hrynjandi, hvergi var skáldskapur. Í staðinn var bara marklaus, óspennandi áferð, hvorki fugl né fiskur.

Dálítið útþynnt

Síðasta verk fyrir hlé var Bow to String eftir Daníel Bjarnason. Það er til í ýmsum útgáfum, allt frá fyrir selló eingöngu og fyrir fullskipaða sinfóníuhljómsveit eins og heyra mátti núna. Upprunalega útgáfan er mun einbeittari en sú sem hér var boðið upp á. Fyrsti kaflinn, með röddum mjög ólíkra hljóðfæra, var dálítið útþynntur, það vantaði ákveðnari heildarhljóm.

Í plokkkenndum öðrum kaflanum var hljómsveitin ekki nægilega samtaka til að skapa viðeigandi áhrif, en hugleiðslukenndur lokakaflinn var flottastur. Himneskar laglínur sellósins við ofurveika hljómsveitarhljóma voru einkar fallegar og hástemmdar. Sellóeinleikurinn var sömuleiðis hjartnæmur.

Slagsmál á frumflutningi

Eftir hlé var Vorblót eftir Stravinskí á efnisskránni. Frumflutningur blótsins í París árið 1913 var afar dramatískur og markar tímamót í tónlistarsögunni. Þetta er ballett og hann vakti hörð viðbrögð vegna framúrstefnulegs tónmáls og óvanalegra danshreyfinga. Menn höfðu aldrei séð og heyrt annað eins og margir urðu mjög reiðir. Eftir því sem á leið flutninginn mögnuðust upp lætin í áhorfendunum, og að því kom að varla var hægt að heyra tónlistina. Á endanum brutust út blóðug slagsmál.

Vorblótið á tónleikunum nú var í stuttu máli sagt guðdómlegt. Túlkunin einkenndist af gríðarlegri snerpu og hnitmiðaðri stígandi. Margbrotið tónmálið var útfært snilldarlega af hljóðfæraleikurunum; hver tónn var á sínum stað. Samspilið var hárnákvæmt og heildarhljómurinn prýðilega mótaður. Lokahnykkurinn var svo glæsilegur að maður fékk gæsahúð.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s