Draugagangur, leirburður og perlur

Niðurstaða: Yfirleitt skemmtilegir tónleikar með fallegri tónlist.

Ár íslenska einsöngslagsins. Fram komu Bryndís Guðjónsdóttir, Gissur Páll Gissurarson, Oddur Arnþór Jónsson, Silja Elísabet Brynjarsdóttir, Ástríður Alda Sigurðardóttir og Eva Þyrí Hilmarsdóttir.

Salurinn í Kópavogi

sunnudaginn 2. október

Ef ég reyndi að svæfa 21 mánaða dótturson minn með því að syngja vögguvísu Jóns Leifs fyrir hann, þá er hætt við að hann yrði viti sínu fjær af skelfingu og myndi bara ekkert sofna. Svo myndi hann neyðast til að ganga til sálfræðings síðar á ævinni.

Vögguvísan er mjög drungaleg, jafnvel óhugnanleg. Af íslenskum vögguvísum er hún líklega sú dekksta, og eru þær þó velflestar afar dapurlegar. Engu að síður er tónlistin mjög áhrifarík, hún er dáleiðandi í einfaldleika sínum og kom einstaklega vel út á tónleikum í Salnum í Kópavogi á sunnudaginn.

Stór lungu

Oddur Arnþór Jónsson bariton söng og gerði það af sannfærandi innlifun og tæknilegum yfirburðum. Síðustu tveir tónarnir eru sérlega langir og eiga að vera sungnir á útöndun, alveg óslitið. Ég hef heyrt marga söngvara svindla á þessu en Oddur Arnþór hafði ekkert fyrir því. Hann er greinilega með stór lungu. Annað sem hann söng á tónleikunum var líka frábært.

Tónleikarnir báru yfirskriftina Ár íslenska einsöngslagsins og eru hluti af röð í Salnum í vetur. Hún er hugarfóstur Jónasar Ingimundarsonar sem var á sínum tíma einn duglegastur allra íslenskra söngundirleikara. Að þessu sinni komu fram tveir píanóleikarar, þær Eva Þyrí Hilmarsdóttir og Ástríður Alda Sigurðardóttir.

Hrífandi túlkun

Bryndís Guðjónsdóttir sópran hóf tónleikana með laginu Kall sat undir kletti eftir Jórunni Viðar. Hún söng því næst Fuglinn í fjörunni eftir Jón Þórarinsson og svo Farfuglana eftir Elísabetu Jónsdóttur. Túlkun hennar var hrífandi, þrungin tilfinningum, auk þess sem röddin sjálf var björt og hljómmikil, en að sama skapi ómþýð. Sömu sögu er að segja um önnur lög sem hún söng síðar á dagskránni.

Nokkrar perlur íslenskrar sönglistar gat að heyra á tónleikunum í bland við minna þekkt lög. Þau síðarnefndu voru sum hver ekkert sérstök. Svanahljómar eftir Maríu Markan og Haustnótt eftir Oddgeir Kristjánsson voru óttalegur leirburður í meðförum Silju Elísabetar Brynjarsdóttur mezzósópran. Þau hefðu kannski komið betur út ef söngurinn hefði verið einlægari. Silja Elísabet virtist aldrei alveg tapa sér í tónlistinni, hvorki hér né í öðrum lögum. Helst var það Yfirlýsing eftir Hjálmar H. Ragnarsson sem var trúverðug í höndum hennar, en hún var talsvert kraftmikil hjá henni.

Stórbrotin aría

Gissur Páll Gissurarson tenór brilleraði á tónleikunum. Allt sem hann söng var áhrifamikið, sérstaklega Vor hinsti dagur er hniginn eftir Jón Ásgeirsson, sem var unaðslega fagurt. Í dag eftir Sigfús Halldórsson var líka mergjað, fullt af mögnuðum tilþrifum, en lagið er hálfgerð óperuaría. Hún var stórbrotin hjá söngvaranum, ákaflega dramatísk og ólgandi af tilfinningum.

Píanóleikararnir voru með allt á hreinu. Leikur þeirra var í senn nákvæmur og þróttmikill, einbeittur og lifandi, agaður og geislandi. Hann vafði sig utan um sönginn og lyfti honum í hæstu hæðir, akkúrat eins og hann átti að gera. Þetta var gaman.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s