Geðvont tónskáld hitti á endanum í mark

Niðurstaða: Sérlega skemmtilegir tónleikar.

Verk eftir Johannes Brahms og Amy Beach. Flytjendur: Anton Miller, Guðný Guðmundsdóttir, Rita Porfiris, Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir og Liam Kaplan.

Norðurljós í Hörpu

sunnudaginn 23. október

Brahms mun hafa verið leiðindakarl. Hann var geðvondur og almennt óþægilegur í lund; sérvitur piparsveinn allt sitt líf. Hann gat líka verið andstyggilegur í tilsvörum. Einu sinni eftir tónleika sagði sellóleikari sem hann lék undir með ekkert hafa heyrt í sér fyrir píanóinu. Brahms svaraði: „Þú ert heppinn, ég heyrði í þér!“ En þótt hann væri gagnrýninn á aðra var hann líka harður við sjálfan sig. Hann efaðist mjög um ágæti margar verka sinna og brenndi ófá handrit.

Ein af tónsmíðum hans sem nagaði hann var píanókvintettinn op. 34. Hann var á dagskrá Kammermúsíkklúbbsins í Norðurljósum í Hörpu á sunnudaginn. Hann átti upphaflega að vera sinfónía, en Brahms fannst efniviðurinn ekki nógu bitastæður fyrir svo volduga tónsmíð. Var strengjakvintett betri leið? Eða sónata fyrir tvö píanó? Nei, á endanum blandaði hann þessum formum saman, skrifaði verkið fyrir píanó og fjóra strengjaleikara, þ.e. píanókvintett. Allt þetta ferli tók mörg ár.

Glæsilegur flutningur

Brahms var piparsveinn og ákveðinn einmannaleiki svífur oft yfir vötnum í tónlist hans. Píanókvintettinn skartar unaðslega fögrum laglínum, en það er í þeim tregi sem hittir mann beint í hjartastað. Fimmmenningarnir sem hér spiluðu gerði það með glæsibrag. Þetta voru Anton Miller og Guðný Guðmundsdóttir á fiðlur, Rita Porfiris á víólu, Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir á selló og Liam Kaplan á píanó. Ólíkt tónskáldinu óhamingjusama var maður heppinn að heyra í sellóleikaranum hér, sem spilaði af kostgæfni og vandvirkni, en jafnframt af sannfærandi ástríðu.

Hinir hljóðfæraleikararnir voru líka með allt á hreinu. Píanóleikurinn var í senn snarpur og tær og hinir strengirnir voru nákvæmir og akkúrat. Samspilið var í prýðilegu jafnvægi, bæði hvað varðar styrkleika og mótun tónhendinga, svo útkoman var einstaklega ánægjuleg áheyrnar.

Áhugaverð atburðarás

Eftir hlé voru tvær tónsmíðar, önnur örstutt en hin lengri, eftir hina bandarísku Amy Beach, sem var uppi á árunum 1867-1944. Sú fyrri var Rómansa fyrir fiðlu og píanó sem Guðný og Kaplan fluttu af innileika og viðkvæmni. Hin síðari var píanókvintett op. 67 sem mun hafa verið undir miklum áhrifum af verki Brahms fyrir hlé. Einhver stef í kvintettinum eftir Beach eru tilvitnun í hitt verkið, en hann er engu að síður frumlegur og síður en svo stæling gamla meistarans. Tónlistin var draumkennd, laglínurnar fallegar með mörgum hrífandi hápunktum, stígandin spennuþrungin og atburðarásin ávallt áhugaverð.

Fimmmenningarnir spiluðu af festu og gríðarlegum krafti, en útfærðu jafnframt ótal fínleg blæbrigði af smekkvísi og fagmennsku. Þetta var frábært.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s