Góður samsöngur en síðri einsöngur

Niðurstaða: Misgóðir tónleikar.

Sönghópurinn Kyrja flutti blandaða dagskrá á Óperudögum

Kex Hostel

þriðjudagur 25. október

Þegar ég var lítill dró stóra systir mín mig á 2001: A Space Odyssey eftir Stanley Kubrik sem er framtíðarmynd. Snemma í myndinni er atriði þar sem forfeður okkar aparnir rekast á furðuhlut frá geimverum; mikinn, svartan kassa. Atriðið er verulega óhugnanlegt, því tónlistin sem er spiluð undir er Lux Aeterna eftir György Ligeti. Það er mjög ómstríður kórsöngur. Tónlist Ligetis heyrist líka í fleiri myndum eftir sama leikstjóra, eins og t.d. The Shining, með mögnuðum áhrifum.

Svipuð stemning ríkti í einu laginu á tónleikum nýstofnaðs sönghóps í Kex Hostel á Óperudögum á þriðjudagskvöldið. Hópurinn ber heitið Kyrja og samanstendur af ellefu karlmönnum. Lagið sem um ræðir hét Armahan Kulku, en það er finnska og Google Translate þýðir það á íslensku sem Yfirferð náðarinnar. Það var eftir einn meðlim hópsins, Philip Barkhudarov, og var gjörningur sem hafði það að markmiði að ákalla hina framliðnu. Áheyrendur voru virkjaðir til að syngja einfalda laglínu, en áttu þó ekki að vera samtaka. Útkoman var afar ómstríð, rétt eins og kórsöngurinn eftir Ligeti. Hún var líka full af tilfinningum og því töluvert áhrifamikil.

Samtaka kór

Lagið var eitt af fáum á tónleikunum sem var sæmilega kynnt. Engin tónleikaskrá fylgdi með og því var sumum e.t.v. ekki ljóst hvað verið var að syngja. Þetta voru vissulega kunnugleg lög á borð við Lítinn fugl eftir Sigfús Halldórsson og Ökuljóð, rússneskt þjóðlag sem Freysteinn Gunnarsson orti ljóð við. Þar voru líka Starálfur úr smiðju Sigur Rósar og Rangur maður eftir Jónas Sig.

Flutningurinn á þessum lögum og fleirum var yfirleitt góður. Kórinn var samtaka og samsöngurinn var tær og í góðu jafnvægi mismunandi radda. Ísland farsælda frón var t.d. verulega glæsilegt, öll fimmundatónbilin voru ísköld og tignarleg, akkúrat eins og þau áttu að hljóma. Hið úkraínska lag Plyve Kacha, kynnt af hinum rússneska Barkhudarov, sem sagðist skammast sín yfir framferði landa sinna, var líka ákaflega fallega sungið. Túlkunin var djúphugul og þrungin hrífandi andakt.

Óspennandi einsöngur

Þetta eru góðu fréttirnar. Þær slæmu eru að sum lögin voru einskonar einsöngur, þ.e. einhver einn úr hópnum söng aðallaglínuna á meðan að hinir mynduðu lágværa undirleikshljóma. Svo var t.d. um Falling Away With You eftir Matthew Bellamy. Það var alls ekki nógu gott. Einsöngurinn var á köflum fremur falskur og hjáróma. Svipaða sögu er að segja um fáein önnur lög á efnisskránni.

Engu að síður voru tónleikarnir að mörgu leyti skemmtilegir. Það sem var gott á þeim var virkilega fínt og innlifunin í flestum lögunum var smitandi. Einnig var áhugavert að koma á tónleika á Kex Hostel. Innréttingin var lífleg og skemmtileg, en hljómburðurinn fremur þurr, sem gerði einsönginn ennþá síðri en ella hefði verið. Kannski hefði verið betra að einbeita sér bara að samsöngnum og sleppa einsöngnum alfarið.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s