Töfraveröld glitrandi blæbrigða

Stephen Hough lék verk eftir Debussy, Liszt og hann sjálfan.

Norðurljós í Hörpu

föstudaginn 13. janúar

Niðurstaða: Glæsilegir tónleikar en sumt hefði mátt verið betra.

Kínversk musteri, ljúfar nætur í Granada, framandi dansar, himnaríki og helvíti… Allt þetta kom við sögu á tónleikum Stephens Hough píanóleikara í Norðurljósum í Hörpu á föstudaginn. Tónleikarnir voru á vegum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, þó hún sjálf hafi ekki komið fram þarna. Hough var hins vegar einleikari hljómsveitarinnar kvöldið áður.

Tónleikarnir nú voru að mestu leyti mjög góðir. Fyrsta verkið á efnisskránni var Estampes eftir Debussy, sem er í þremur köflum. Upphafskaflinn miðlar andrúmsloftinu í kínverskri helgiathöfn, og Hough hafði tónlistina fullkomlega á valdi sínu. Áslátturinn var silkimjúkur, dálítið þokukenndur, akkúrat eins og hann átti að vera. Fyrir vikið varð leikurinn einstaklega myndrænn; maður sá fyrir sér einhverja töfraveröld glitrandi blæbrigða, veröld sem engan enda tók og kom stöðugt á óvart.

Þrungin dulúð

Annar kaflinn var ekki síðri, og bar hann nafnið Nótt í Granada. Einnig þar var áferðin þrungin dulúð, með sannfærandi breidd, allt frá ofurveikri danshrynjandi yfir í ástríðufullan söng. Þriðji kaflinn var líka frábær, en þar var dregin upp mynd af hellirigningu í fögrum garði. Spilamennskan var snörp og lifandi, flæðið í tónlistinni óheft og spennandi.

Næst á dagskrá var partíta eftir Hough sjálfan. Það er gamalt tónlistarform sem venjulega samanstendur af mismunandi dönsum, ásamt forleik. Partítan var líklega hápunktur dagskrárinnar. Tónlistin var í senn voldug og fíngerð, kraftmikil og innhverf. Þarna voru þokkafullir dansar í spænskum stíl. Jafnframt voru bornar fram tignarlegar sinfóníur í anda frönsku orgeltónskáldanna. Tonsmíðin var hugvitsamlega byggð, skreytt alls konar óvæntum uppákomum og sérlega glæsilegri stígandi með afar flottum endi. Hann kallaði á mikil húrrahróp frá áheyrendum, og voru þau fyllilega verðskulduð.

Ólystugur Liszt

Petrarka sonnetta nr. 123 eftir Liszt var þar á eftir á dagskránni, og var hún hugljúf og dreymandi. Dante-sónatan eftir sama tónskáld, sem var lokatónsmíð tónleikanna, olli hins vegar nokkrum vonbrigðum. Þetta er brjálæðisleg hugleiðing um himnaríki og helvíti, og hún var ekki alltaf nægilega vel spiluð tæknilega séð. Áttundahlaup voru gjarnan óhrein og nokkuð stíf. Sumir mjúkir kaflar hefðu líka getað verið fallegri. Hins vegar var mikil stemning í túlkuninni, og hún var a.m.k. í anda tónskáldsins, en píanistinn hefði engu að síður mátt vanda sig meira.  

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s