Innblásinn Ravel en Haukur var síðri

Verk eftir Mozart, Ravel og Hauk Tómasson. Einleikari: Claire Huangci. Stjórnandi: Eva Ollikainen.

Eldborg í Hörpu

fimmtudaginn 19. janúar

Niðurstaða: Skemmtilegir tónleikar að mestu.

Ég var ekkert sérstaklega spenntur yfir komandi Sinfóníutónleikum á fimmtudagskvöldið. Á dagskránni var meðal annars G-dúr píanókonsertinn eftir Ravel. Það er óttalega útjöskuð tónlist, líka hér á landi. Hvorki meira né minna en fimmtán píanistar hafa áður spreytt sig á konsertinum með Sinfóníunni í gegnum tíðina. Nú var komið að enn einum píanóleikaranum. Hvílík leiðindi!

En flutningurinn kom skemmtilega á óvart. Hin kínversk-bandaríska Claire Huangci, einleikari kvöldsins, rúllaði konsertinum upp. Hann lék í höndunum á henni, og alls konar heljarstökk og tónahlaup upp og niður hljómborðið voru óaðfinnanlega af hendi leyst.

Það var þó ekki aðalmálið. Nei, túlkunin var fersk og safarík, svo spennuþrungin og áleitin, að það var eins og maður væri að heyra konsertinn í fyrsta sinn. Laglínurnar voru fullar af tilfinningum, bæði silkimjúkar og snarpar, allt eftir því hvað við átti hverju sinni. Stígandin í flutningnum var krassandi og heildaráferðin dásamlega litrík. Þetta var frábært.

Hljómsveitin með sitt á hreinu

Stjórnandinn á tónleikunum var Eva Ollikainen og hljómsveitin spilaði af kostgæfni með einleikaranum. Hljómsveitarrullan er töluvert krefjandi, og er ánægjulegt að geta þess að hljóðfæraleikararnir stóðu sig með stakri prýði. Frammistaða málm- og tréblásaranna var til dæmis aðdáunarverð.

Á tónleikunum var frumflutt Jörð mistur himinn eftir Hauk Tómasson. Verkið mun vera innblásið af myndlist Georgs Guðna. Myndir hans eru magnaðar og lýsandi á einhvern dularfullan hátt, en sama verður ekki sagt um tónlistina. Hún var ekki sérlega áhugaverð. Rétt eins og málverk var í henni kyrrstaða sem hverfðist um einn tón megnið af tímanum. Ofan á hann var prjónuð áferð sem virtist aðallega vera þrusk og skrjáfur, ekki mjög lokkandi. Maður skynjaði enga dýpt, engan skáldaanda, ekkert flæði, ekkert sem virtist liggja tónskáldinu á hjarta. Fyrir vikið var fátt ef nokkuð sem var hrífandi í tónlistinni.

Spennandi atburðarrás

Annað á tónleikunum var hins vegar fínt. Haffner-sinfónían eftir Mozart var skemmtileg í túlkun Ollikainen og hljómsveitarinnar. Laglínurnar voru notalega ávalar og hnitmiðaðar, atburðarrásin í tónlistinni spennandi. Tæknilega séð var flutningurinn yfirleitt glæsilegur, og því rann flutningurinn þægilega niður.

Svíta nr. 2 úr balletinum um Dafnis og Klói eftir Ravel var líka flott. Fyrsti kafli svítunnar, Dagrenning, var ákaflega tignarleg. Í takt við yrkisefnið var tónlistin rismikil, það var eins og hún hæfi sig til flugs úr djúpinu. Innhverfur annar kaflinn var seiðandi og hugleiðslukenndur. Sá þriðji var ótrúlega fjörugur dans sem magnaðist upp í svo stórfenglegan hápunkt að áheyrendur æptu af hrifningu.

Hljómsveitin var með allt á hreinu í þessari mergjuðu tónlist, hver einasti hljóðfærahópur skilaði sínu af fagmennsku og krafti. Heildarhljómurinn var þéttur og einbeittur, gæddur allskonar litbrigðum og snilldarlegum tilþrifum. Eva Ollikainen hélt um stjórnartaumana af festu og öryggi; enn einu sinni sýndi hún að hún er einn besti stjórnandi sem hljómsveitin hefur fengið til liðs við sig.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s