Niðurstaða: Yfirleitt mjög skemmtilegir tónleikar.
Ár íslenska einsöngslagsins. Lög eftir mismunandi íslenska höfunda. Fram komu Egill Árni Pálsson, Hanna Dóra Sturludóttir, Harpa Ósk Björnsdóttir, Unnsteinn Árnason, Hrönn Þráinsdóttir og Matthildur Anna Gísladóttir.
Salurinn í Kópavogi
sunnudagur 19. febrúar
Bindindishreyfingin IOGT (International Organization of Good Templars) var í mínu ungdæmi uppnefnd „Íslenskir ofdrykkjumenn og gamlir tugthúslimir“. Hreyfingin starfrækti lúðrasveit á sínum tíma, og þar spilaði Karl O. Runólfsson þegar hann var ungur drengur. Starfið hafði djúpstæð áhrif á hann og var hann áhugamaður um lúðrablástur alla tíð. Enda er oft mikið fjör og hnitmiðaður taktur í tónlist hans.
Gott dæmi um það mátti heyra á tónleikum í röðinni Ár íslenska einsöngslagsins í Salnum í Kópavogi á sunnudaginn. Lagið, sem var upphafslag tónleikanna, var Viltu fá minn vin að sjá, um „sveininn þann sem ég ann, fríðari engan finna má…“ Hanna Dóra Sturludóttir mezzósópran söng með tilþrifum og flottri raddbeitingu (sem hún gerði líka eftir hlé). Verra var að líflegur píanóleikurinn var heldur sterkur og yfirgnæfði sönginn. Píanóleikurinn var í höndum Matthildar Önnu Gísladóttur, sem stóð sig annars mjög vel á tónleikunum. Í þessu tiltekna atriði var hann hins vegar fullmikið af því góða.
Fyrst væmið, svo betra
Eins og á öðrum tónleikum raðarinnar voru fjórir söngvarar og tveir píanóleikarar. Ekki þó allir í einu, nema í aukalaginu, sem var Vikivaki eftir Valgeir Guðjónsson. Eftir að Hanna Dóra hafði sungið þrjú lög, var röðin komin að Agli Árna Pálssyni tenór. Hann flutti fyrst frekar væmið lag eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson, Ó, lífsins faðir, sem kom ekki sérlega vel út. Hin tvö lögin voru miklu skemmtilegri. Annað var Fyrirlátið mér eftir Jón Ásgeirsson og hitt Frændi, þegar fiðla þegir eftir Gunnstein Ólafsson. Bæði lögin hittu beint í mark og Egill söng tignarlega og með sannfærandi tilfinningu. Stígandin í túlkuninni var markviss og röddin sérlega glæsileg. Sömu sögu er að segja um lögin eftir hlé, sem voru eftir Sigvalda Kaldalóns og Árna Thorsteinsson.
Með minni rödd
Harpa Ósk Björnsdóttir sópran var líka góð, en rödd hennar var þó talsvert minni. Máríuvers eftir Pál Ísólfsson – það undurfagra lag – hefði að ósekju mátt vera stærra um sig. Sömu sögu er að segja um Svanasöng á heiði eftir Sigvalda Kaldalóns og Síðasta dansinn eftir Karl O. Runólfsson. Harpa stóð sig talsvert betur eftir hlé í lögum eftir Jórunni Viðar, Hildigunni Rúnarsdóttur og Pál Ísólfsson; sennilega var hún þá komin almennilega í gang.
Ákaflega grípandi
Fjórði söngvarinn á tónleikunum var Unnsteinn Árnason bassi, sem ég minnist ekki eftir að hafa heyrt í áður. Hann var prýðilegur, með sérlega ómþýða, en líka djúpa og kraftmikla rödd. Hann söng m.a. ljúft lag eftir Oliver Kentish, Heimþrá, sem og Krumma eftir Tryggva M. Baldvinsson, einnig mjög flott. Sverrir konungur eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson, sem var eftir hlé, var líka ákaflega grípandi.
Eins og áður sagði voru tveir píanóleikarar á tónleikunum. Matthildi Önnu hef ég þegar minnst á, en hin var Hrönn Þráinsdóttir, sem spilaði ávallt mjúklega og með næmri tilfinningu.
Tónleikarnir voru á óvanalegum tíma, klukkan hálf tvö, sem er sniðugt skipulag. Fínt er að fara á tónleika svo snemma á sunnudeginum og eiga svo megnið af deginum eftir að þeim lýkur. Þetta var gaman.