Má ég standa upp?

4 stjörnur

Aría dagsins, Íslenska óperan

Eldborg í Hörpu á netinu

Í óperunni Tosca eftir Puccini ræðst kona á mann og stingur hann í hjartað með rýtingi. Eftir nokkra stund spyr hann: „Má ég standa upp?“

Atriðið er að finna í heimildarmyndinni Tosca‘s Kiss, sem fjallar um elliheimilið Casa di Riposos per Musicist í Mílanó. Það er ætlað óperusöngvurum sem eru komnir á eftirlaun og var stofnað af engum öðrum en Giuseppe Verdi, óperutónskáldinu ástsæla. Heimildarmyndin var gerð fyrir allnokkru, en hana er að finna á iTunes. Hún er bráðskemmtileg. Vistmenn lifa að mestu í fortíðinni. Fólkið er sísyngjandi og setur gjarnan upp á elliheimilinu atriði úr óperum sem það tók þátt í að flytja á sínum tíma í alvöru sölum.

Margt í myndinni er skondið. Einn náungi gerir gys að bariton-söngvara sem er að þenja sig. Sök hans er að dvelja of lengi á einhverri hápunktsnótunni. Náunginn glottir og biður hann um að slökkva þegar hann er búinn.

Annar söngvari fer í búning sem hann tekur upp úr gömlu kofforti. Hann klæddist honum í uppfærslu á Rigoletto fyrir áratugum síðan. Því næst setur hann á plötu með aríu úr óperunni, stendur grafkyrr og hlustar, og hneigir sig svo virðulega fyrir koffortinu að aríunni lokinni.

Stemningin er á vissan hátt svipuð í  tónlistarstreymi Íslensku óperunnar úr Eldborg í Hörpu sem ber heitið Aría dagsins. Þetta eru íslenskir söngvarar sem syngja við meðleik Bjarna Frímanns Bjarnasonar. Streymið samanstendur af einum söngvara á dag og verkefnið yfirleitt aría úr óperu. Tilfinningarnar sem fólkið ber á torg í söngnum eru fölskvalausar, en tómir áhorfendabekkirnir virka einkennilega. Heildarútkoman er dálítið vandræðaleg, rétt eins og skrýtnu senurnar í heimildarmyndinni.

Söngvararnir standa sig þó prýðilega. Dísella Lárusdóttir syngur t.d. afar fallega aríur eftir Puccini og Charpentier. Rödd hennar er tær og fögur, raddbeitingin nákvæm og túlkunin stórbrotin. Habaneran fræga úr Carmen sem Valgerður Guðnadóttir syngur, er líka glæsileg, full af léttleika og snerpu. Schmerzen eftir Wagner í meðförum Auðar Gunnarsdóttur, er sömuleiðis flott, en það er eitt af fáum lögum þarna sem ekki flokkast undir óperuaríu.

Margt annað mætti telja upp, eins og hrífandi flutning á aríu úr La Boheme eftir Puccini í túlkun Ingibjargar Guðjónsdóttur, og E lucevan le stelle eftir sama tónskáld úr Toscu, en þar er það Egill Árni Pálsson sem syngur af gríðarlegri tilfinningu.

Bjarni Frímann spilar ákaflega vel á flygilinn, hver nóta er á sínum stað og stemningin ávallt sú rétta. Hún myndar umgjörð utan um sönginn og lyftir honum í hæstu hæðir.

Óskandi væri að heyra þetta allt saman á alvöru tónleikum í náinni framtíð. Tónlistarlífið hefur illilega verið kýlt niður og þess er sárt saknað. Við spyrjum okkur núna öll þessarar táknrænu spurningar: Má ég standa upp?

Niðurstaða:

Aría dagsins er streymi í boði Íslensku óperunnar og er skemmtileg og upplífgandi.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s