Ærandi þögn á tónleikum

Maður nokkur keypti einu sinni slökunardisk. Á kápunni stóð: Hugleiðsla í Pýramídanum mikla. Honum leist vel á, kveikti á geislaspilaranum og setti sig í stellingar fyrir hugleiðslu. En honum til skelfingar var ekkert á geisladiskinum, bara þögnin ein. Hann stóð upp alveg brjálaður og henti frá sér heyrnartólunum, fannst hann illa svikinn að heyra ekki róandi tal við þægilega sveimtónlist í bakgrunninn.

Mörgum er illa við þögn. Eitt sinn spilaði ég á tónleikum á ráðstefnu í Háskóla Íslands. Eða þannig. Ég gekk inn í fullan sal, settist við flygil, lagði hendurnar á hljómborðið eins og ég væri að fara að spila, en gerði ekki neitt. Þannig beið ég í nokkrar mínútur. Áheyrendurnir vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið. Sumir flissuðu. Á endanum stóð ég upp, hneigði mig við vandræðalegt og dræmt lófatak, og gekk út.

4 mínútur og 33 sekúndur

Ráðstefnan í Háskólanum fjallaði um tímann. Þetta var árið 2000 og þarna voru áhugaverðir fyrirlestrar, m.a. talaði sagnfræðingur um lífið í Reykjavík síðustu hundrað ár. Eðlisfræðingur spáði fyrir um framtíð alheimsins, sem er býsna dapurleg, en þó ekki fyrr en eftir MJÖG  langan tíma. Uppákoman mín var frægt verk eftir John Cage (1912-1992) sem heitir Fjórar mínútur og þrjátíu og þrjár sekúndur. Þar er engin nóta spiluð, tónsmíðin samanstendur af þögninni einni, sem er römmuð inn af leikrænum tilburðum.

Tíminn er í aðalhlutverki í verkinu, og því þótti það tilvalið til flutnings á ráðstefnu um tímamót. Það hljómar kannski eins og einhvers konar viðundarsýning, en er bara ein af mörgum tilraunum í gegnum tíðina til að gefa þögninni listrænt gildi.

Þagnir gefa merkingu

Franska tónskáldið Debussy var á þeirri skoðun að þagnirnar sem eru allt í kring um tónana gæfu þeim merkingu. Miles Davis, djasstrompetleikarinn óviðjafnanlegi, hélt því fram að list hans snerist ekki um tónana sem hann spilaði. Hún væri um þá sem hann spilaði ekki.

Allt kemur úr þögninni. Hún á þó ekki alltaf við, eins og viðtalsþáttur í sjónvarpinu fyrir nokkrum árum var gott dæmi um. Gísli Marteinn Baldursson ræddi þar við Jónas heitinn Jónasson útvarpsmann. Talið barst að síbyljunni og hávaðamenguninni í kringum okkur, og Jónas benti á að í sjónvarpinu væri þetta sérstaklega slæmt, þar væri bókstaflega aldrei þögn. Svo stakk hann upp á því að þeir Gísli Marteinn myndu bara þegja í smá stund. Og þá gerðust undur og stórmerki: Þeir horfðu á hvor annan og þögðu. Á Föstudagsdagskvöldi! Gísli Marteinn var fljótt vandræðalegur og þá var augnablikið búið. En þetta var áhrifamikið.

Samtillti sig í þögninni

Í gamla daga, þegar tónlist var sungin í kirkjum, voru þagnirnar á milli hendinga og melódía mótaðar af byggingunum, nánar tiltekið af bergmálinu. Munkar eða nunnur sungu einhverja línu, en svo biðu þau eftir að endirinn dæi út áður en sú næsta væri sungin, svo tónarnir rynnu ekki saman í graut. Í þessum pásum var hugleitt; kórinn samstillti sig andlega í þögninni.

Í klassískri tónlist eru mörg mögnuð augnablik, þar sem þagnir eru í aðalhlutverki. Kannski var Beethoven fremstur meðal jafningja í að skapa áhrifamiklar þagnir. Hann átti það til að byggja upp gríðarlega spennu, og síðan þegar hann kom að hápunktinum, setti hann óvænta þögn, áður en næsta hending byrjaði. Sú þögn er venjulega ærandi.

Svona þagnir eru sérstaklega lifandi á tónleikum. Þær eru auðvitað líka á upptökum, en þar eru þær bara ekki sami hluturinn. Á tónleikum skapast andrúmsloft, og langar þagnir segja þá meira en mörg orð. Ég hlakka til þegar tónlistarlífið lifnar við aftur, með öllum sínum þögnum, hvort sem það er fimmta sinfónían eftir Sibelius, Sköpunin eftir Haydn, eða níunda sinfónían eftir Mahler. Þögnin er dásamleg.  

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s