2 stjörnur
Verk eftir Mozart, Massenet, Sigfús Einarsson og Jón Nordal í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Einsöngvari: Hallveg Rúnarsdóttir. Einleikari: Sigrún Evaldsdóttir. Stjórnandi: Bjarni Frímann Bjarnason.
Eldborg í Hörpu/bein útsending á RÚV sjónvarpi
miðvikudaginn 20. maí
Polki er oft spilaður á Vínartónleikum Sinfóníuhljomsveitar Íslands, enda er þetta fjörugur dans. Eggjasuðupolkinn hefur þó ekki heyrst þar, svo vitað sé. Hann var eftir Hardtberg nokkurn frá Berlín seint á nítjándu öldinni. Ekki aðeins þótti gaman að dansa polkann, heldur var hann líka praktískur í eldhúsinu. Leiðbeiningarnar, sem fylgdu nótnaheftinu, voru svona: Settu egg í sjóðandi vatn og spilaðu svo polkann. Þegar þú hefur lokið leiknum eru eggin tilbúin.
Yfirskrift polkans var „allegro moderato“, sem þýðir hratt, en þó rólega. Ef polkinn væri spilaður í sama hraða og Bjarni Frímann Bjarnason stjórnaði fyrsta kaflanum í sinfóníu nr. 29 eftir Mozart, í beinni útsendingu í sjónvarpi RÚV á miðvikudagskvöldið, yrðu eggin hrá og ólystug. Kaflan á samt einmitt að flytja „allegro moderato“, sem var ekki að heyra á fremur galgopalegri hljómsveitarstjórninni. Tónlistin var óróleg og virkaði stressuð, eins og öllum lægi óskaplega mikið á. Tæknilega séð var leikurinn auk þess slæmur. Strengirnir voru ósamtaka, sérstaklega í byrjun, og margir óhreinir tónar skemmdu heildarupplifunina.
Tveggja metra reglan
Hljómsveitinni er vorkunn, því þetta voru skrýtnar aðstæður. Aðeins örfáir áheyrendur voru í Eldborginni í Hörpu, þetta var bein útsending á besta tíma, líklega voru margir að hlusta heima í stofu. Hljómsveitin er venjulega stærri, en hér voru hljóðfæraleikararnir óvanalega langt hver frá öðrum.
Næstu atriði efnisskrárinnar voru miklu betri. Hallveig Rúnarsdóttir sópran söng með hljómsveitinni þrjár aríur úr jafnmörgum óperum eftir Mozart. Hljómsveitin var þá komin almennilega í gang og spilaði af kostgæfni. Hallveig söng ákaflega fallega, í senn tært en þó af hlýleika. Eins og alltaf einkenndi áreynsluleysi söng hennar, tónarnir voru eðlilegir og fallega mótaðir.
Brestir í hljóði í útsendingu
Upplifunin hefði því átt að vera frábær, en því miður voru skruðningar og brestir í hljóðinu, sem skemmdu upplifunina. Fyrst hélt ég að netið heima hjá mér væri að stríða mér; ég horfi á RÚV í gegnum Apple TV. Við óformlega rannsókn á samfélagsmiðlum komst ég að því að margir fleiri upplifðu það sama. Verður að segjast eins og er að ríkisstofnun með milljarða í fjárveitingu á að geta gert betur en þetta.
Þrjú íslensk sönglög komu ágætlega út, miðað við aðstæður; Hvert örstutt spor eftir Jón Nordal, og Draumalandið og Gígjan eftir Sigfús Einarsson. Hallveig söng af innlifun, en hljómsveitarútsetningin á síðastnefnda laginu var ekki sannfærandi. Hún virkaði klén þegar maður hefur heyrt upprunalegu útgáfuna. Tignin og kyngin sem einkennir tónlistina var ekki til staðar í belgingslegum hljómsveitarleiknum.
Besta atriði tónleikanna var Hugleiðslan fræga úr óperunni Thais eftir Jules Massenet. Þar lék Sigrún Eðvaldsdóttir á einleiksfiðluna. Innlifunin og einbeitingin í einleiknum var slík að það var smitandi. Tónlistin lyfti andanum, túlkunin var svo þrungin helgi og hjartahlýju að það var alveg einstakt. Óskandi hefði verið að hljóðið í útsendingunni hefði verið fyllilega hreint; túlkun Sigrúnar átti það svo sannarlega skilið.
Niðurstaða:
Sumt var vel flutt, en brestir og brak í hljóðinu í beinni útsendingu skemmdu upplifunina.