„Þú ert alltaf að skamma mig“

Sjónvarpsþættir

5 stjörnur

Músíkmolar. Dagskrárgerð: Víkingur Heiðar Ólafsson, Halla Oddný Magnúsdóttir og Egill Eðvarðsson.

RÚV

Ef marka má tónlistina eftir Debussy sem Víkingur Heiðar Ólafsson og Halla Oddný Magnúsdóttir kynna fyrir landsmenn í sjónvarpsþáttunum Músíkmolum, þá var tónskáldið hinn ljúfasti náungi. Verkin sem Víkingur spilar eru yfirleitt draumkennd og mjúk, að vísu stundum þunglyndisleg, en annað er glaðlegt. Persónan Debussy var þó ekki þannig. Hann var fúll á móti, gat verið uppfullur af háði og kvikindisskap, ef hann var ekki hreinlega geðvondur. Svo átti hann fáa vini, og þegar hann gerðist tónlistargagnrýnandi, urðu þeir ennþá færri. Gagnrýni Debussys var hörð og hann neitaði að bugta sig fyrir tónskáldum sem almennt eru sveipuð dýrðarljóma.

Heima eða ekki

Þættirnir eru sniðugir. Þeir eru sýndir á RÚV á sunnudagskvöldum, og eru bara um tíu mínútur að lengd. Þeir eru teknir upp í Eldborg í Hörpu fyrir tómum sal, sem gæti talist veikleiki, því ýmis tónlistarstreymi þaðan hafa heppnast misjafnlega. Músíkmolar eru þó vel unnir, myndatakan er smekkleg og hljóðið prýðilegt. Kannski finnst einhverjum að svona þættir ættu að vera teknir upp í stofunni heima, eins og Helgi Björns gerði með miklum glæsibrag. En þá væri hljóðið í píanóinu ekki líkt því eins gott. Flygillinn í Eldborg er tryllitæki.

Sambandið á milli Höllu og Víkings er líka skemmtilegt, og skárra væri það nú; þau eru jú hjón. Hver þáttur hefst á því að Víkingur spilar brot úr einhverju verki, sem hingað til hafa flest verið af nýjasta geisladiskinum hans, þ.e. eftir Debussy eða Rameau. Eftir mínútu eða svo fara þau hjónin að tala um tónsmíðina, og gera það líflega og af gríðarlegri þekkingu, bæði tvö. Þau eru ekki beint fyndin, en ástríða þeirra á klassískri tónlist skín í gegn. Og það er þakkarvert, því alltof fáir þekkja undrin sem þar er að finna.

Hvernig á að túlka?

Tónlistin eftir Rameau er líka mögnuð. Sérstaklega var gaman að þættinum þar sem Víkingur spilaði Villimennina, sem munu vera innblásnir af frumstæðum dönsum. Þar kvartaði Víkingur yfir því að konan hans væri alltaf að skamma hann fyrir það hvernig hann spilaði þetta verk. Hún svaraði því til að henni fyndist hann ekki leika það nógu villimannslega. Svo prófaði hann að spila það með miklu þyngri takti, en henni fannst það ekki heldur nógu gott!

Svona fær áhorfandinn innsýn í það hvernig hægt er að túlka klassíska tónlist á mismunandi hátt. Annað dæmi er Fuglarnir, einnig eftir Rameau, sem Víkingur spilar mjög fjörlega. Hann vísar í samtalinu á undan til píanóleikarans Emils Gilels, sem lék þetta sama verk á mun lágstemmdari nótum. Víkingur hermir aðeins eftir honum, og þarna líka heyrir fólk hve fjölbreytnin í túlkun getur verið mikil. Þetta og allt annað í þessum þáttum er frábært; bæði upplýsandi og fagurt.

Niðurstaða:

Músíkmolar eru skemmtilegir og fróðlegir og tónlistarflutningurinn er í hæsta gæðaflokki.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s