Seiðandi andrúmsloft en rangur maður

Geisladiskur

3 stjörnur

Ævitún. Tveir flokkar ljóðalaga eftir Jón Hlöðver Áskelsson. Flytjendur: Huldea Björk Garðarsdóttir, Kristinn Sigmundsson og Daníel Þorsteinsson.

Tölvutónn ehf

Ulysses S. Grant, hershöfðinginn knái sem leiddi her sinn til sigurs í amerísku borgarastyrjöldinni á nítjándu öld og varð síðar forseti, sagði eitt sinn: „Ég þekki bara tvö lög. Annað þeirra er Yankee Doodle. Hitt er það ekki.“ Ef þetta væri heimfært yfir á íslenska fagurtónlist, gæti maður sagt: „Ég þekki bara tvö lög. Annað þeirra er Draumalandið. Hitt er það ekki.“

Lögin sem finna má á geisladiskinum Ævitún eru býsna ólík Draumalandinu, og Yankee Doodle er þar víðsfjarri. Tónlistin er eftir Jón Hlöðver Áskelsson og samanstendur af tveimur lagaflokkum. Flytjendur eru Hulda Björk Garðarsdóttir og Kristinn Sigmundsson en Daníel Þorsteinsson leikur á píanó.

Þrungið tilfinningum

Ljóðin í fyrri flokknum eru eftir ýmis skáld en í þeim síðari eru þau öll eftir Böðvar Guðmundsson. Tónlistin er skemmtilega fjölbreytt, laglínurnar eru oft flóknar og ómstríðar, en þó aldrei þannig að það sé tilgerðarlegt. Þvert á móti eru þær þrungnar tilfinningum. Rödd píanósins er tær og hófsöm, og saman myndar söngur og píanó fallega heild sem skapar seiðandi andrúmsloft.

Eitt áhrifamesta lagið er Vinir kveðja, sem er úr fyrri lagaflokknum. Ljóðið er eftir Sverri Pálsson sem orti það eftir dauða vinar síns. Það er stutt, en stílbragð í lokin myndar úr því heila eilífð. Endurteknar píanónótur í talsvert langan tíma stöðva tímann; útkoman er dáleiðandi. Þetta stílbragð er notað á fleiri stöðum. Þar má nefna lagið Febrúar, í seinni flokknum sem er helgaður mánuðunum. Febrúar er „stystur… [sinna] ellefu bræðra, en þeirra lengstur samt.“ Eftirspil píanóleikarans er langt og endurtekningarsamt, en á góðan máta. Stemningin er kyngimögnuð og sýnir berlega hve febrúar getur verið langdreginn.

Söngur Huldu Bjarkar er glæsilegur, blæbrigðaríkur og nákvæmur, brothætt stemningin skilar sér fullkomlega í túlkun hennar. Röddin er tær og falleg, lögin eru unaðsleg áheyrnar í meðförum hennar.

Hrjúf rödd, mjóróma píanó

Frammistaða Kristins er nokkuð síðri, rödd hans er orðin hrjúfari með aldrinum og hún hreinlega hentar ekki viðfangsefninu. Hann hefur vissulega mikið „karisma“ á sviði, en nakin röddin á upptöku viðkvæmra laga er ekki líkt því eins sjarmerandi.

Einnig má finna að hljómi píanósins, þótt leikur Daníels á það sé vandaður og fagmannlegur. Píanóið sjálft er bara ekki bitastætt, það er mjóróma og grunnt. Geisladiskurinn er hljóðritaður í Víðistaðakirkju; spurning er hvort ekki hefði átt að leita eitthvert annað með upptökurnar.

Tónlistin sjálf er engu að síður hrífandi, þetta eru heillandi tónsmíðar; vonandi eiga þær eftir að heyrast á tónleikum sem oftast.

Niðurstaða:

Falleg tónlist, en misjafn söngur og hljómur píansóins er rýr.   

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s