Ha ha ha… ha ha ha

5 stjörnur

Óperugala á Sönghátíð í Hafnarborg. Dísella Lárusdóttir og Bjarni Thor Kristinsson sungu; Antonia Hevesi lék á píanó.

Hafnarborg

laugardaginn 4. júlí

Til er lag sem samanstendur að mestu af hlátri. Það er The Laughing Policeman eftir Charles Jolly. Þar segir af gömlum og feitum lögregluþjóni sem er alltof vingjarnlegur fyrir starf sitt, því hann er síhlæjandi. Viðlagið er brjálæðislegur hlátur sem er í takt við undirspilið. Þetta lag, sem finna má á YouTube, kemur mér alltaf í gott skap. Hláturinn er svo smitandi.

Óperútgáfuna af laginu mátti heyra á tónleikum á laugardaginn. Þeir voru hluti af árlegri Sönghátíð í Hafnarborg. Hér var það þó ekki lögga sem hló, heldur djöfullinn sjálfur. Um var að ræða aríu Mefistófelesar (sem er eitt af nöfnum myrkrahöfðingjans) úr óperunni Fást eftir Gounod. Mefistófeles er þar að gera gys að elskendum og af og til rekur hann upp miklar hláturrokur. Bjarni Thor Kristinsson bassi var í hlutverkinu, og hann var svo sannarlega í essinu sínu. Söngurinn var í senn kröftugur og húmorískur, svo mjög að það var alveg dásamlegt. Þetta var mögnuð túlkun, og vitfirringslegur hláturinn ógleymanlegur.

Á barmi gjaldþrots        

Óperusöngvarar hafa ekki haft mikið að gera undanfarna mánuði, ekkert frekar en tónlistarfólk yfirleitt. Óperuhúsin og tónleikasalirnir eru margir á barmi gjaldþrots. Þeir fáu tónleikar í boði undanfarið hafa verið í streymisformi, og hafa oftar en ekki verið hálfgerð vonbrigði. Upplifunin á netinu er einfaldlega ekki sambærileg við það að vera á lifandi tónleikum. Sjónvarpsútsendingar eru oft fremur misheppnaðar vegna þjöppunar á hljóði sem þar tíðkast, en hún gerir að verkum að styrkleikabrigðin fletjast út og heildaráferðin verður leiðinlega dauf.

Það var því kærkomið að fara á tónleika í Hafnarborg og sitja með fólki af holdi og blóði og fá tónlistina beint í æð. Mikið hefur menningarlífið verið fábrotið undanfarna mánuði! Auk Bjarna Thors komu fram Dísella Lárusdóttir sópran, en Antonía Hevesi lék á píanó.

Fullkomið vald á röddinni

Söngur Dísellu var frábær. Það lék allt í höndunum á henni. Röddin var tær en að sama skapi stór, og Dísella hafði fullkomið vald á henni. Ach, ich liebte úr Brottnáminu úr kvennabúrinu eftir Mozart var stórfengleg, og hvílík fegurð í Depuis le jour úr Louise eftir Charpentier. Já, hvílíkar tilfinningar! Söngurinn var einfaldlega unaðslegur áheyrnar. Sömu sögu er að segja af Bjarna Thor, hvort sem það var Wagner, Donizetti, Verdi eða fyrrnefndur Mozart. Hvert einasta atriði var mergjað.

              Þetta voru svokallaðir óperugalatónleikar, nokkurs konar þverskurður af óperubókmenntunum. Antonia Hevesi var í hlutverki hljómsveitar og hún spilaði prýðilega, hver tónn var á sínum stað og stemningin ávallt sú rétta. Útkoman var afar skemmtileg; maður hló af gleði lengi eftir tónleikana.

Niðurstaða:

Frábærar raddir og tilþrifarík túlkun gerðu tónleikana að mikilli skemmtun.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s