4 stjörnur
Verk eftir Purcell, Dowland, Paisiello, Scarlatti, Jáuregui og fleiri. Flytjendur: Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, Eyjólfur Eyjólfsson og Francisco Javier Jáuregui.
Hafnarborg
sunnudaginn 5. júlí
„Minn gúrú er meiri en þinn gúrú.“ Indverski heimspekingurinn Jiddu Krishnamurti sagði þetta stundum, og var þar að deila á stríðandi fylkingar ólíkra trúarbragða. Hinn sannkristni heldur að hann sé betri en búddistinn, og búddistinn að hann sé betri en sá kristni. Og trúleysinginn lítur niður á þá sem trúa, og öfugt. Útkoman er oft andlegur hroki sem getur af sér átök.
Sumir túlka boðskapinn í ljóðinu Trúarbrögð kærleikans eftir Ibn Arabi, sem var uppi á tólftu og þrettándu öld, að allar leiðir, þ.e trúarbrögð, liggi til Guðs. Arabi var svokallaður súfisti, en þeir aðhyllast einskonar mystíska útgáfu Islamstrúar. Ekki eru allir sammála þessari túlkun, en hvað um það; mystísk stemning var svo sannarlega til staðar í tónlist Franciscos Javiers Jáuregui við þetta ljóð. Þar söng Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir við blæbrigðaríkan undirleik. Laglínan var framandi og heillandi í senn, en hljóðfæraleikurinn íhugull og leitandi, og skapaði hvort tveggja seiðandi heildarmynd. Andrúmsloftið var eins og í djúpri hugleiðslu.
Draumkennd og annarsheimsleg
Tónsmíðin var flutt á tónleikum á sunnudaginn á hinni árlegu Sönghátíð í Hafnarborg. Jáuregui kom víðar við á efnisskránni, því hann lék á gítar og gerði nokkrar útsetningar. Útgáfa hans á írsku þjóðlagi, She Moved Through the Fair, var sérstaklega vel heppnuð. Lagið er til í ótal gerðum, en sú sem hér var borin á borð var draumkennd og annarsheimsleg. Hún var með allskonar óvæntum undirleikshljómum og hendingum sem sköpuðu sterk hughrif.
Í það heila var tónlistin á efnisskránni skemmtileg. Hún var eftir ólík tónskáld frá því í eldgamladaga, þ.á m. útsetningar eftir Matthias von Holst, en hann var langafi Gustavs Holst. Gustav á heiðurinn af frægu verki, Plánetunum, sem rataði að hluta til í fræga hrollvekju, Alien. Tónlist langafa gamla var talsvert veraldlegri, þetta voru skosk þjóðlög, frekar einföld en einkar hnyttin.
Í banastuði
Guðrún Jóhanna er mezzósópran og hún hefur sjaldan eða aldrei verið í betra formi. Söngur hennar var tær og nákvæmur, fullur af lífi. Smæstu smáatriði allskonar litbrigða skiluðu sér prýðilega í vandaðri túlkun hennar; það var afar gaman að hlusta á hana.
Eyjólfur Eyjólfsson tenór söng líka á tónleikunum, og hann gerði margt vel, söng hreint og innilega. Styrkleikabrigðinn í söng hans voru þó heldur ýkt, hann var stöðugt að flakka úr veiku í sterkt og aftur til baka, og veiku tónarnir hans heyrðust illa þar sem undirritaður sat. Fyrir bragðið urðu línurnar í söng hans ekki nógu sannfærandi. Flæðið kom samt eftir nokkru lög, veiku tónarnir urðu skýrari og söngurinn varð fallegri eftir það.
Hljóðfæraleikurinn var ágætur á tónleikunum; Eyjólfur spilaði á tréflautu (barokkflautu) og gerði það af festu og öryggi, og gítarleikur Jáureguis var fagmannlegur; bæði nostursamlegur og kraftmikill þegar við átti. Þetta var flott.
Niðurstaða: Yfirleitt skemmtilegir tónleikar með hrífandi tónlist.