4 stjörnur
Cantoque Ensemble flutti íslenska tónlist. Steinar Logi Helgason stjórnaði.
Hafnarborg
Þriðjudaginn 7. Júlí
Frans páfi spurði eitt sinn: „Hverjir eru betri, kaþólikkar eða mótmælendur?“ Hann svaraði sjálfum sér: „Þeir sem eru saman í bróðerni.“ Þannig hefur það oft ekki verið. Við vorum kaþólsk í rúmar fimm aldir, en svo sörguðu þeir af Jóni Arasyni hausinn, Herra minn trúr, eins og Megas orðaði það. Þar með var kaþólskan bönnuð til ársins 1874, þegar trúfrelsi varð í landinu. Ef marka má tónleika sönghópsins Cantoque Ensemble á Sönghátíð í Hafnarborg á þriðjudagskvöld sakna margir kaþólskrar tíðar. Andi nostalgíu sveif yfir vötnunum á efnisskránni.
Stærsta tónsmíðin var Aldasöngur eftir Jón Nordal. Þar blandast saman Maríuvísur eftir Jón Helgason, auk endurreisnar- og síðmiðaldaljóða. Í textanum er tjáður söknuður eftir kaþólska tímanum og talað um menningarlega og trúarlega hnignum sem á að hafa átt sér stað eftir siðaskipti. Í takt við það er tónlistin alvörugefin, það er í henni þungi sem kórinn túlkaði prýðilega undir stjórn Steinars Loga Helgasonar. Kórinn samanstóð af átta manns, allt vönum og skóluðum röddum. Söngvararnir sungu hreint og af viðeigandi tilfinningu. Stjórn Steinars Loga var vönduð og örugg; hann hafði þægilega nærveru.
Maríukvæði túlkuð af næmi
Fleiri lög helguð Maríu mey voru á dagskránni. Þar var t.d. Lofsöngur Maríu eftir Þorvald Örn Davíðsson; hrífandi lag sem kórinn söng einkar fallega. María drottins liljan eftir Báru Grímsdóttur var líka fallegt, en í laginu myndaði kórinn nostursamlegan vef áleitinna hendinga, sem sköpuðu sterk hughrif. Tvö Maríukvæði Atla Heimis Sveinssonar voru einnig heillandi, enda túlkuð af miklu næmi af Steinari Loga og söngvurunum.
Á dagskránni var eingöngu íslensk tónlist, mikið til ný. Elsta tónskáldið var Jórunn Viðar, en hún lést fyrir þremur árum. Kórinn söng eftir hana Vökuró í útsetningu Söru Grímsdóttur. Útsetningin var hugvitsamleg með allskonar mismunandi fjölröddun sem myndaði ólíka hljóma, en sjálft lagið, sem er óskaplega fallegt, var satt best að segja víðsfjarri! Stundum er minna meira, og það átti við hér.
Seiðandi skáldskapur
Allt annað var ánægjulegt áheyrnar. Syngur sumarregn eftir Hildigunni Rúnarsdóttur var grípandi, sömu sögu er að segja um Örlög eftir Þóru Marteinsdóttur og Afmorsvísu eftir Snorra Sigfús Birgisson. Eitt fallegasta lagið var þó eftir Hafstein Þórólfsson og hét 2020. Það var fullt af óræðum tilfinningum sem vöktu eitthvað innra fyrir manni, virkilega seiðandi skáldskapur. Lag eftir kórstjórann rak svo lestina, Upp vek þú málið mitt, sem var fjörugur og kraftmikill endir ágætlega lukkaðra tónleika.
Helst mátti finna að sjálfri tónleikaskránni, sem var í skötulíki. Söngtexta var ekki að finna og enginn fróðleikur um lögin í skránni. Þau voru samt mörg svo forvitnileg að gaman hefði verið að fræðast eitthvað um tilurð þeirra.
Niðurstaða:
Að mestu ánægjuleg dagskrá áhugaverðra laga túlkuð af fagmennsku.