Hér stöðvast tíminn

Geisladiskur

5 stjörnur

Katarina Leyman: Vattenklanger

FP Music

Það voru ekki bara Niccolo Paganini og Franz Liszt sem áttu að vera í slagtogi með myrkrahöfðingjanum. Blúsgítarleikarinn Robert Johnson, sem er miklu nær okkur í tíma, átti að hafa verið það líka. Sagan segir að hann hafi í fyrstu bara verið ósköp venjulegur músíkant, en tekist að ákalla Satan á krossgötum um miðja nótt. Samkvæmt sögunni mun Satan hafa verið stór maður, sem stillti gítar Roberts og gaf honum færni og hæfileika til að slá í gegn.

Þessi saga er býsna lífseig. Tengsl tónlistar og töfra er það líka, eins og finna má merki um víða í tónlistarsögunni. Sum tónlist ER einfaldlega galdur, og nýútkominn geisladiskur með verkum sænska samtímatónskáldsins Katarinu Leyman er gott dæmi um það. Þetta er vissulega torskilin tónlist, hún er ekkert í líkingu við blúsinn hans Roberts Johnsons. Blúsinn er hins vegar skyldur djassinum, og djassinn er ekki langt undan á plötunni. Laglínur píanósins, sem er í stóru hlutverki megnið af diskinum, eru flúraðar og dálítið framandi, eins og finna má oftar en ekki í djassinum.

Draumkennd stemning

Þetta er samt ekki djassdiskur, svo það sé á hreinu. Nafn hans er Vattenklanger, þ.e. Hljóð vatnsins, og tónrænar líkingar við vatnshljóð koma fyrir í sumum verkunum, eru jafnvel undirstaða þeirra. Vatnsmjúkir hljómar og gutlkenndar hendingar skapa draumkennda stemningu, eilítið hugleiðslukennda. Hljómarnir eru ekki endilega úr djassinum, þeir eru annarsheimslegir og dálítið ómstríðir, en ávallt merkingarþrungnir. Hver þeirra er mikilvægur hluti af sögunni, sem er ætíð áhugaverð.

Fyrsta verkið á dagskránni heitir Swarms, eða Sveimur og er fyrir sex hljóðfæraleikara. Rétt eins og fuglasveimur er tónlistin á sífelldri hreyfingu. Hljómarnir eru torræðir, en yfirbragðið er samt frjálslegt, eins og tónlistin svífi í lausu lofti. Það er magnað.

Þóra Einarsdóttir lágstemmd

Næsta tónsmíð, Crepusculo, eða Rökkur, fyrir sópran og píanó, er fjarskalega heillandi. Textinn er úr ljóði eftir Alfonsinu Storni og lýsir sólarlagi. Rödd söngkonunnar er lágstemmd og íhugul, og annarlegir hljómarnir og áleitnar laglínurnar eru seiðandi. Heildarmyndin er svo tilkomumikil að það er eins og tíminn stöðvist.

Svipaða sögu er að segja um hin verkin á diskinum, þau eru myndræn og sjarmerandi. Maður finnur að tónskáldinu liggur mikið á hjarta, hvort sem það eru viðbrögð við náttúrufyrirbærum eða ljóðum. Rödd Leyman er ávallt frumleg og vinnubrögðin hennar vönduð og nostursöm. Hún er greinilega snillingur sem vert er að fylgjast með.

Flutningurinn á diskinum er í fremstu röð. Þóra Einarsdóttir syngur í tveimur verkunum og gerir það af alúð og smekkvísi. Katarina Ström-Harg leikur af öryggi og næmni á píanóið, og sama er uppi á teningnum hjá Stefan Harg klarinettuleikara og hinum hljóðfæraleikurunum. Óhætt er að gefa þessum geisladiski fullt hús.

Niðurstaða:

Frumleg og grípandi samtímatónlist sem mann langar til að heyra aftur og aftur.  

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s