1 og half stjarna
Geisladiskur
Atonement. The Music of Páll Ragnar Pálsson
Sono Luminus
Tónsmíðaferlið er einskonar hugleiðsla, segir Páll Ragnar Pálsson í bæklingnum sem fylgir geisladiski með tónlist hans. Hann kveðst ekki byrja á upphafsreit þegar hann hefur smíði nýs verks. Hann heldur bara áfram þar sem frá var horfið í síðasta verki. Eitt hljóð getur af sér annað, eins og grein á tré. Tónlist hans er túlkun, fremur en valdbeiting eða vitsmunaleg rökræða. Hún flæðir, eða svo skyldi maður ætla af lestri bæklingsins. Þetta hljómar ágætlega, eða hvað?
Fimm verk eftir Pál eru á geisladiski sem ber heitið Atonement, og er það jafnframt titillinn á einni tónsmíðinni. Caputhópurinn leikur í mismunandi samsetningum og Tui Hirv sópran syngur í þremur verkanna. Flutningurinn er vandaður og nostursamur. Þannig á hann einmitt að vera, því í tónlist Páls er mikið af fínlegum blæbrigðum.
Ljóð liggja til grundvallar fjögurra tónsmíða, og tónskáldið hefur aðallega reynt að endurvarpa á tónastrengina merkingu hvers orðs og hverrar setningar. Allskonar myndlíkingar koma því við sögu í tónlistinni. En hvað svo?
Myrkrið ræður ríkjum
Áður en spurningunni er svarað er rétt að geta þess að aðferðin er gamalreynd. Svipað er uppi á teningnum hjá ótal öðrum tónskáldum, á einn eða annan hátt. Bach gamli notaði aðferðina t.d. ríkulega í messum sínum. Þar er að finna margbrotna táknfræði sem endurspeglar guðfræðilegar vangaveltur. Í verkum hans er andi og ljós, en myrkrið ræður ríkjum í tónlistinni eftir Pál. Og það er ekkert spennandi.
Fjölbreytt áferð er að vísu forvitnileg til að byrja með, en svo gerist fátt. Þrátt fyrir sífellda iðu smágerðra hendinga og hljóma, sem eru vissulega snyrtilegir, vantar stærri myndina. Framvindan er máttlaus, engin saga grípur hlustandann. Tónlistin er eins og drungalegt, óáhugavert landslag, og manni líður fljótt illa þar. Svarið við spurningunni hér að ofan – En hvað svo? – er því: Ekkert.
Ekkert gerist
Gallinn við tónlistina er nefnilega hversu andlaus hún er. Þrátt fyrir mismunandi hljóðasamsetningar og hendingar sem endurspegla orðin í ljóðunum, fer tónlistin aldrei á flug. Hið sama er endurtekið aftur og aftur. Útkoman er endalaust myrkur. Reyndar getur myrkrið verið spennandi, eins og t.d. í músíkinni eftir Ligeti eða Penderecki, þar sem maður fær nasasjón af helvíti, sem er viss opinberun. Hér er hins vegar eins og tónskáldinu liggi fátt á hjarta, annað en að vera með þráhyggju. Og þráhyggjan er því miður fyrir einhverju sem manni kemur bara hreint ekkert við.
Niðurstaða:
Góður flutningur, en leiðinleg tónlist