4 stjörnur
Verk eftir Halldór Smárason. Flytjendur: Strokkvartettinn Siggi.
Norðurljós í Hörpu
fimmtudaginn 20. ágúst
Kántrísöngvari bjó einu sinni lag til um pabba sinn, sem var tónskáld og samdi ómstríða tónlist. Textinn var einhvern veginn svona: „Pabbi var tónskáld. Nútímatónlist var stíllinn hans. Tónlistin hans kom þér til að hugsa. En aldrei að brosa.“
Líklega má segja eitthvað svipað um tónlist Halldórs Smárasonar, sem var flutt á tónleikum í Norðurljósum í Hörpu á fimmtudagskvöldið. Hún var athyglisverð, en býsna strembin. Ég hef þó heyrt fleiri hliðar á Halldóri. Barn sem hann ætti myndi hugsanlega semja lag sem hljómaði svona: „Tónlistin hans pabba kom þér til að hugsa, en aldrei að brosa, nema þegar hann spilaði djass.“ Halldór er nefnilega ágætur djassari og hann hefur líka útsett ýmislegt léttmeti sem fær mann svo sannarlega til að brosa.
Lifandi flutningur og 9.1 hljóðkerfi
Aftur að broslausu tónlistinni. Þetta voru útgáfutónleikar. Um þessar mundir kemur út geisladiskur með tónlist Halldórs sem heitir Stara, en eitt verkið ber þetta nafn. Strokkvartettinn Siggi flutti tónlistina að hluta, en u.þ.b. helmingur hennar var einfaldlega spilaður í hátölurum salarins, og ljósin slökkt á meðan. Hátalarnir voru allt í kring og hljómurinn dýrmætur. Hvert einasta blæbrigði heyrðist skýrt; unaður var á að hlýða.
Tónlist Halldórs var vissulega ómstríð og krafðist einbeitingar, en hún var ekki leiðinleg. Hljómarnir voru annarlegir og laglínurnar mjög afstrakt, en inn á milli voru markvissar endurtekningar. Ákveðnar hendingar voru leiknar aftur og aftur, og það gaf óreiðunni form. Hún öðlaðist viðspyrnu og fyrir bragðið varð hún skiljanlegri.
Blaktandi fáni
Tónlistin var skemmtilega myndræn. Í verkinu BLAKTA, sem byggir á hugmyndinni um blaktandi fána, var tónmálið t.d. kyrrlátt og dálítið sveimkennt, en samt lá ákveðin hrynjandi til grundvallar. Vindurinn blés missterkt, og gott ef vindáttin breyttist ekki. Það endurspeglaðist í óvæntum breytingum í tónmálinu, nýjum hljómum, nýrri áferð.
Annað dæmi um áhrifaríkt myndmál var Skúlptúr I. Þar átti gítarleikari (Gunnlaugur Björnsson) að skapa hljómrænan ísskúlptúr, en rafrænn hluti tónsmíðarinnar var bara ákveðið langur. Grítarleikarinn varð að ljúka verki sínu áður en slökkt var á rafundirspilinu. Yfirbragðið var kuldalegt og fjarrænt, með skrýtnum, fallandi laglínum sem voru áleitnar í einfaldleika sínum.
Krónískar nefstíflur
Þriðja dæmið var Stop Breathing. Hugmyndin byggðist á hljóðunum sem krónískar nefstíflur valda. Væntanlega var þarna asmablístur líka. Þetta er hvimleitt vandamál, en engu að síður var tónlistin hástemmd og full af skáldlegri andagift. Blístrið varð til úr ómandi strengjum hátt í tónstiganum, og kannski einhverri elektróník líka. Það var a.m.k. afar fallegt.
Eins og áður sagði sá Strengjakvartettinn Siggi um lifandi hluta tónleikanna. Leikur hans var markviss og einbeittur, nákvæmur og vel ígrundaður. Heildarútkoman fékk mann ekki beinlínis til að brosa, en hún var ávallt áhugaverð, og greinilegt að tónskáldinu lá mikið á hjarta. Í nútímatónlistinni er það ekki sjálfgefið.
Niðurstaða:
Áhugaverð tónlist sem var vel flutt.