Tónlist… ZZZ…

Ég hef notað ýmis svefnmeðul í gegnum tíðina, sum hollari en önnur. Einu sinni las ég í ákveðinni bók, The Christian Philosophy of St. Thomas Aquinas eftir Etienne Gilson. Yfirleitt dugði að lesa bara einu blaðsíðu, því bókin var svo tyrfin og leiðinleg. Verst var að ég átti það til að dreyma Spænska rannsóknarréttinn með tilheyrandi pyntingum, og því hætti ég fljótlega að nota þessa aðferð.

Klassísk tónlist er gæfulegri leið til að slaka á eftir annansaman dag. Hún er auðvitað alls konar, en hér er átt við rólega tónlist í hægu tempói. Yfirleitt er betra að velja tónlist frá barokk- eða klassíska tímabilinu, þ.e. frá ca. 1600-1820. Hæg verk, sem eru nær okkur í tíma, eru stundum með órólegum milliköflum, og stuðla því ekki að góðum svefni. Þetta er þó ekki algilt.

Rannsóknir á áhrifamætti tónlistar

Töluvert hefur verið gert af rannsóknum á tengslum tónlistar og svefns. Ein var framkvæmd árið 2006. Níutíu og fjórum háskólanemum, sem allir höfðu kvartað undan svefnvandamálum, var skipt í þrjá hópa. Hópur 1 átti að hlusta á rólega klassíska tónlist í 45 mínútur fyrir svefn. Hópi 2 var gert að hlusta á hljóðbók í jafn langan tíma. Hópur 3 hafist ekkert að. Fylgst var með svefninum samkvæmt ákveðnum stuðli, bæði fyrir rannsóknina, og vikulega á meðan hún fór fram. Einnig var andlegt ástand fólksins kannað reglulega.

Niðurstöður voru þær að svefninn lagaðist í hópi 1, en ekki í hinum hópunum. Töluvert dró líka úr þunglyndiseinkennum í sama hópi, en ekki í hinum.

Leiddar hugleiðslur

Vissulega er klassísk tónlist ekki sú eina sem er slakandi. Í dag eru til óteljandi tegundir leiddrar hugleiðslu til að hjálpa fólki að sofna. Til dæmis er appið Insight Timer með gríðarlega margskonar hugleiðslu, bæði með og án tónlistar. Einnig er þar hrein tónlist, án þess að einhver sé að tala yfir henni. Þessi tónlist er ekkert endilega merkileg út frá einhverjum akademískum mælikvörðum, en hún á heldur ekki að vera það. Einkenni hennar eru langir, liggjandi hljómar og afslappaðar hendingar sem oft eru endurteknar í sífellu. Heildarútkoman skapar kyrrð og æðruleysi, sem gerir mann syfjaðan.

Full af andagift

Fyrir þá sem vilja hins vegar eitthvað með framvindu og virkar upplífgandi, þá eru Goldberg tilbrigðin eftir Bach góður valkostur. Tilbrigðin heita eftir tónlistarmanni sem lék tilbrigðin fyrir rússneskan greifa, en hann átti í erfiðleikum með svefn. Tilbrigðin eru þó mjög fjölbreytileg, og sum eru svo hröð að þau gætu VALDIÐ svefnleysi, frekar en hitt. En greifinn ku hafa verið þakklátur fyrir dægrastyttinguna, eða næturstyttinguna öllu heldur. Líklega á það við um fleiri.

 Persónulega mæli ég með tónlistinni eftir Hildegard von Bingen. Hún var uppi á tólftu öld, nunna og mystíker, og samdi dýrlega tónlist. Á Spotify er að finna plötu með tónlistarhópnum Sequentia, sem hefur sérhæft sig í tónlist miðalda. Platan heitir Hildegard von Bingen – Canticles of Ecstasy. Hún er mögnuð. Tónlistin er full af andagift, en að sama skapi íhugul, þrungin helgi, alveg einstök. Varla er hægt að ímynda sér betri tónlist til slökunar. Góða nótt.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s