4 stjörnur
Blönduð dagskrá í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn Daníels Bjarnasonar. Bein útsending á RÚV.
Eldborg í Hörpu
föstudaginn 4. september
Einhver grínisti setti internetið á hliðina nýlega með því að leggja fyrir fólk eftirfarandi gátu: Það tekur 120 manna hljómsveit 40 mínútur að flytja níundu sinfóníu Beethovens. Hvað myndi 60 manna hljómsveit vera langan tíma að gera það sama? Fákunnandi netverjar svöruðu margir: 80 mínútur. En það er alrangt, sinfónía Beethovens tekur alltaf jafn langan tíma, sama hversu margir spila.
Mér datt þetta í hug á föstudagskvöldið, þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt árlegu tónleikana sína Klassíkin okkar undir stjórn Daníels Bjarnasonar. Tónleikarnir voru í beinni útsendingu; vegna Covid 19 voru sárafáir í Eldborginni í Hörpu. Og ekki bara það, hljómsveitin var óvanalega fámenn, svo hægt væri að viðhalda tveggja metra reglunni. Samt voru verkin ekkert lengur að líða. Tónleikarnir sjálfir voru þó harla langir, en það má rekja til þess að báðar menningarstofnanirnar halda upp á stórafmæli á árinu. Sinfónían er sjötug, RÚV er nírætt.
Vinsæl klassík
Eins og vaninn er á Klassíkinni okkar samanstóð efnisskráin af vinsælli klassík, gjarnan köflum úr stærri verkum eins og fiðlukonsert Mendelssohns, sinfóníu nr. 2 eftir Sibelius og æsilegum þætti úr Eldfuglinum eftir Stravinskí, en þar gekk mikið á. Hljómsveitin var með besta móti, væntanlega vel hvíld eftir sumarið. RÚV var líka í góðu formi, upptakan var í senn hljómmikil og skýr og kynningar þeirra Guðna Tómassonar og Höllu Oddnýjar Magnúsdóttur voru líflegar og skemmtilegar.
Of langt mál væri að telja allt upp sem hér var flutt, enda tónleikarnir sérlega langir eins og áður segir. Páll Palomares lék einkar fallega hæga kaflann úr fiðlukonsert Mendelssohns, tónmyndunin var hárnákvæm og voldug. Elmar Gilbertsson söng m.a. Vöggukvæði Emils Thoroddsen af þokka og tilfinningu, og Dísella Lárusdóttir var sömuleiðis með allt sitt á hreinu í Íslensku vögguljóði á hörpu eftir Jón Þórarinsson.
Ruht wohl úr Jóhannesarpassíunni eftir Bach var himneskt. Þar söng Mótettukór Hallgrímskirkju (undir stjórn Harðar Áskelssonar) af næmri tilfinningu fyrir háleitum textanum; útkoman var dásamleg.
Kaldhæðni Emiliönu Torrini
Stemningin var heldur djöfulegri í Ha Ha eftir Emilíönu Torrini, þar sem hún söng sjálf. Lagið, sem er af plötunni Me and Armini frá 2008, byrjaði með sólói á selestu. Það var í fyrstu sakleysislegt, enda hljómar selestan eins og spiladós. En svo kom allt í einu ægilegt glamur. Þetta gaf tóninn fyrir sjálft lagið, sem var skemmtilega kaldhæðnislegt.
Eina sem var aðfinnsluvert á tónleikunum var kynningin á Dauða Ásu úr Pétri Gaut eftir Grieg. Kynnarnir sögðu frá því að kaflinn hefði verið fluttur utan dagskrár á Sinfóníutónleikum árið 1995, til að minnast þeirra sem höfðu látist í snjóflóði nokkrum dögum fyrr. Á meðan þau voru að tala heyrði maður óminn af verkinu. Þegar það svo raunverulega byrjaði á dagskránni var það ekki nærri því eins áhrifaríkt og það hefði getað orðið, vegna þess að því hafði verið þjófstartað. Flutningurinn sjálfur var þó fallegur, hann einkenndist af trega og hjartahlýju.
Í heild voru þetta flottir tónleikar og gefa góð fyrirheit um skemmtilegan vetur framundan.
Niðurstaða:
Vönduð útsending og fínn tónlistarflutningur.