Undiraldan í Beethoven var grípandi

4 og hálf stjarna

Verk eftir Beethoven og Glass í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Stjórnandi: Eva Ollikainen. Einleikari: Víkingur Heiðar Ólafsson.

Eldborg í Hörpu/Bein útsending RÚV

fimmtudagur 17. september

Einhver nemandi í barnaskóla skrifaði einu sinni í ritgerð um tónlist að börn og eiginkona Beethovens hefðu alltaf verið að rífast í honum og gert hann ENNÞÁ heyrnarlausari.

Það er að vísu satt að Beethoven byrjaði að þjást af heyrnarskerðingu 26 ára gamall og hún leiddi á endanum til algers heyrnarleysis. Hann átti hins vegar hvorki konu né börn. Heyrnarleysið gerði hann smám saman útlægan úr mannlegu samfélagi, og svo var hann einkar skapheitur í þokkabót. Ekki er vitað hvað olli heyrnarleysinu, en Beethoven sagðist ætla að taka örlögin kverkataki. Hann var staðráðinn í að láta þau ekki buga sig, og hann þjálfaði sig í að semja tónlist án þess að þurfa að heyra hvernig hún hljómaði á píanói, eins og tónskáld gjarnan gera.

Fyrir byltingu

Sú tónlist sem flutt var eftir hann á Beethoven-veislu Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið var samin frekar snemma á ferlinum, áður en hann varð heyrnarlaus. Fyrsta verkið á dagskránni var lokakaflinn úr fyrstu sinfóníunni, en hann samdi alls níu. Sú fyrsta er í hefðbundnu formi að mestu; Beethoven var enn ekki orðinn sá byltingarmaður sem hann varð síðar, er hann umbreytti hefðbundnum klassískum tónlistarformum og opnaði brautina fyrir miklu meira frelsi í tónsköpun en áður hafði þekkst.

Kaflinn var hressilega spilaður undir stjórn Evu Ollikainen, sem er nýráðinn aðalstjórnandi hljómsveitarinnar. Strengir voru að vísu ekki alltaf alveg samtaka, sem heyrðist nokkuð glöggt í útsendingu RÚV, en undirritaður horfði á hana í sjónvarpinu. Túlkunin var þó fyllilega í anda verksins; skapstór og tignarleg, gædd gríðarlegum krafti sem var algerlega óstöðvandi.

Hin dulda merking

Maður veltir stundum fyrir sér hvað svona tónlist merkir. Hver er merking tónlistarinnar? Beethoven var sjálfur spurður hvað tiltekið verk eiginlega þýddi, eftir að hann hafði leikið það á píanó fyrir lítinn hóp áheyrenda í stofu. Tónskáldið reiddist við spurninguna, og án þess að svara settist hann aftur við píanóið og lék allt verkið á ný. Það var svar hans; merkingin var í sjálfri tónlistinni, hún þýddi ekkert annað.

Merkingarþrungin túlkun

Þetta kom upp í hugann þegar Víkingur Heiðar Ólafsson lék einleikinn í þriðja píanókonsertinum, sem var næstur á dagskránni. Tæknilega séð var leikurinn lýtalaus, allskonar tónahlaup voru óaðfinnanlega skýr og jöfn, tónmyndunin var safarík og samspilið við hljómsveitina hárnákvæmt. Það í sjálfu sér var ekkert sérlega athyglisvert. Það sem var sláandi var hve túlkun Víkings var merkingarþrungin. Hún var gædd miklum tilfinningum án þess að vera væmin; stórbrotin með undiröldu sem greip mann strax. Þetta var frábær flutningur.

Í lok tónleikanna kvað við nýjan tón, en þá var byrjunin úr Glassworks eftir Philip Glass á dagskránni. Þetta er heillandi tónlist í einfaldleika sínum, hún byggist á sífelldri endurtekningu einfalds tónefnis, sem skapar dálítið nostalgíska stemningu. Flutningur strengjaleikara og píanóleikara var fágaður og ljúfur áheyrnar, og var það fallegur endir skemmtilegra tónleika.

Niðurstaða:

Magnþrunginn flutningur á þriðja píanókonsertinum eftir Beethoven, og annað kom líka ágætlega út.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s