Undarlegheit á Beethoven tónleikum

2 og hálf stjarna

Kristín Jónína Taylor og Bryan Stanley fluttu sónötur eftir Beethoven.

Salurinn í Kópavogi

laugardaginn 19. september

Þetta voru undarlegir tónleikar. En kannski við hæfi, fyrst Beethoven var eingöngu á dagskránni.

Í venjulegu árferði hefði verið mikið um dýrðir í tónlistarheiminum, því um þessar mundir eru 250 ár síðan Beethoven fæddist. Covid hefur þó gert að verkum að afmælispartíið hefur verið fámennt.

Á laugardaginn byrjaði ný tónleikaröð í Salnum í Kópavogi og, já, tónleikarnir voru undarlegir. Fyrir það fyrsta voru tónleikagestir greinilega óttaslegnir og pössuðu mjög vel upp á á næsti maður væri ekki of nálægt. Um helmingur tónleikagesta var með grímur.

Fjarlægir flytjendur

Það var þó ekki hið undarlega. Nei, það var að flytjendurnir, píanóleikararnir Kristín Jónína Taylor og Bryan Stanley, voru ekki einu sinni á staðnum. Þau eru búsett í Bandaríkjunum, og vegna Covid 19 komust þau ekki hingað til að spila. Í staðinn var upptökum með leik þeirra varpað á tjaldið fyrir ofan sviðið.

Ég sagði hér í upphafi að kannski hefði þetta verið við hæfi. Beethoven fór að þjást af sívaxandi heyrnarskerðingu þegar hann var á þrítugsaldri, og hún varð á endanum alger. Hann lét þó ekki deigan síga, heldur hélt áfram að semja tónlist sem varð dýpri og magnaðri eftir því sem árin liðu. Hann, líkt og tónleikahaldarar í Salnum, létu ekkert aftra sér.

Pistlar um tónskáldið

Á efnisskránni voru tvær sónötur, nr. 2 og nr. 28, en Beethoven samdi alls 32 píanósónötur. Fyrirhugað er að þær verði allar fluttar af íslenskum píanóleikurum í Salnum í vetur. Á tónleikunum nú las Arnar Jónsson leikari pistla um tónskáldið á undan hverri sónötu. Hann gerði það skemmtilega.  

Kristín Jónína Taylor spilaði fyrri sónötuna. Hún var afar glæsileg í meðförum hennar. Tæknilega séð var hún afburðavel leikin, hröð hlaup og allskonar heljarstökk eftir hljómborðinu voru áreynslulaus og glæsileg. Skýrleiki og kraftur einkenndi túlkunina. Hún var í senn formföst og full af lífi.

Ský á himni

Bryan Stanley var nokkuð síðri í seinni sónötunni. Tónlistin einkennist af friðsælli náttúrustemningu sem verður að fölskvalausri gleði, en hér var eins og ský væri fyrir himni. Túlkunin var ekki nógu afgerandi. Gleðin var ekki sérlega smitandi, friðurinn ekki heldur. Tæknilega séð var leikurinn fremur loðinn, og stundum óöruggur. Heildarútkoman var ekki mjög spennandi.

Þau Kristín og Bryan léku sem aukalög þrjá dúetta eftir Beethoven og gerðu það ágætlega. Spilamennskan var fjörleg og snörp, akkúrat eins og hún átti að vera. Hins vegar var tónlistin sjálf ekki upp á marga fiska. Beethoven var snillingur, en hann átti sína slæmu daga líka. Þetta var því leiðinlegur endir á tónleikunum, og í rauninni hreinn óþarfi.

Niðurstaða:

íanóleikurinn var misjafn, en tónlistin sígild, með undantekningum.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s