2 og hálf stjarna
Verk eftir Bach-fjölskylduna og Telemann. Barokkbandið Brák lék.
Eldborg í Hörpu
sunnudaginn 20. september
Hljómsveitarstjóri nokkur sagði einu sinni að semball hljómaði eins og beinagrindur að elskast uppi á blikkþaki. Semballinn lítur út eins og eins konar píanó, en strengirnir eru plokkaðir með sérstökum mekanisma. Útkoman – plokk, klikk og bank í ýmsum myndum – líkist helst skrölti í beinagrindum.
Spilað var á sembal á tónleikum Barokkbandsins Brákar, sem voru haldnir í Eldborg í Hörpu á sunnudaginn. Það heyrðist ekki mikið í honum. Ástæðan var sú að áhorfendur fengu ekki að sitja nær en á fimmtánda bekk í salnum niðri. Afhverju veit ég ekki. Covid var væntanlega sökudólgurinn, en hví var ekki hægt að sitja nær flytjendum? Er ekki bara eins eða tveggja metra regla? Fyrirkomulagið var óþolandi. Auðvitað situr maður stundum langt í burtu á sinfóníutónleikum, en þá er líka spilað á nútímahljóðfæri. Brák leikur eingöngu á eldri gerð strengjahljóðfæra, sem eru mun veikraddaðri en ella.
Slæm þróun fyrir sumt
Eftir því sem tónlistin þróaðist frá barokktímanum yfir í rómantík 19. aldarinnar þurftu hljóðfærin meiri hljómstyrk til að hægt væri að túlka þær tilfinningaólgur sem rómantíkin kallaði á. Farið að var að nota stálstrengi í stað garna í strokhljóðfærunum, flautan var smíðuð úr málmi en ekki tré, o.s.frv. Þessi breyting umturnaði barokktónlistinni, hún varð miklu belgingslegri og missti hinn fínlega karakter sem einkenndi hana.
Nú er hins vegar svo komið að maður getur notið barokktónlistar með reglulegu millibili eins og hún var upphaflega hugsuð. Lítill hópur á borð við Barokkbandið Brák sérhæfir sig í því, en fyrir bragðið krefst hann meiri nálægðar. Til allrar óhamingju var hljómurinn á tónleikunum svo viðkvæmur að á sautjánda bekk í Eldborginni, þar sem undirritaður sat, var engan veginn hægt að njóta hans. Útkoman minnti helst á ferðaútvarp.
Furðulega gott verk
Þetta er synd, því flutningurinn gekk yfirleitt eins og í sögu. Strengirnir voru endrum og sinnum ósamtaka, en heilt yfir var leikurinn jafn og nákvæmur, kraftmikill og grípandi. Tónlistin var eftir Bach, syni hans og ættingja, auk Telemanns. Mikið af henni er sjaldheyrð á Íslandi; ég er ekki viss um að hafa nokkru sinni heyrt Ouverture svítu nr. 1 í g-moll eftir Johann Bernhard Bach, sem var bróðursonur Johanns Sebastian Bachs. Það var furðulega gott verk, með innblásnum laglínum og heillandi framvindu sem greip mann allt til loka. Flutningurinn á því var líka sérstaklega vel heppnaður, samsvaraði sér ágætlega og var gæddur nauðsynlegri fágun.
Svítan var leikin eftir hlé, en almennt var spilamennskan betri eftir því sem á leið. Væntanlega hefur einhver glímuskjálfti spilað þar inn í; þetta voru undarlegar aðstæður, þar sem smágerð hljómsveit þurfti að berjast fyrir því að í henni heyrðist í risastórum sal. Sú barátta heppnaðist ekki sem skyldi, því miður.
Niðurstaða:
Heilt yfir góður flutningur og skemmtileg tónlist, en viðkvæm hljóðfærin nutu sín ekki í þeim aðstæðum sem hér var boðið upp á.