4 stjörnur
Eyþór Ingi Jónsson á Orgelsumri í Hallgrímskirkju. Verk eftir Buxtehude, Bach, Magnús Blöndal og Gísla Jóhann Grétarsson.
Hallgrímskirkja
Fimmtudaginn 6. ágúst
Einu sinni sótti organisti nokkur um vinnu. Í umsókninni skrifaði hann: „Ég sæki hér með um starf sem organisti við kirkjuna. Þér auglýstuð eftir konu eða karlmanni til að leika á orgelið. Undanfarin ár hef ég verið bæði, svo ég ætti að koma sterklega til greina.“
Tónleikar í Hallgrímskirkju í hádeginu á fimmtudaginn voru ekki svona. Karlmaður lék á orgelið, og hann var ekki í drag. Tónskáldin á efnisskránni voru karlmenn. Eitt tónskáldið var meira að segja með geislabaug. Það var Bach. Ýmiss konar vitleysa hefur verið skrifuð um hann. Tónlistarfólk ber svo mikla virðingu fyrir honum að það er eins og að allt sem var gert fyrir daga hans hafi verið la-la.
Frábært tónskáld í sjálfu sér
Buxtehude er dæmi um þetta, en hann átti fyrsta verkið á tónleikunum. Eyþór Ingi Jónsson, organisti við Akureyrarkirkju, lék eftir hann Passakalíu, sem er eins konar dans. Tónlistarfræðingurinn Manfred Bukofzer hélt því fram að Buxtehude hafi aðeins lagt grunninn að því sem Bach þróaði til fulls. En Buxtehude var frábært tónskáld i sjálfu sér og það sem Eyþór spilaði var fagurt. Leikur hans var vandvirkur og samhljómur ólíkra radda var í senn tær og nostursamlega mótaður. Útkoman var hrífandi.
Bach bar sjálfur mikla virðingu fyrir Buxtehude, svo mjög að þegar hann var ungur maður gekk hann 400 kílómetra til að hlusta á hinn aldna snilling spila á orgelið. Það er svona eins og göngutúr frá Reykjavík til Akureyrar og hefur væntanlega tekið um viku með stoppum. Ekkert Spotify þar!
Spúkí tónlist
Næst á dagskránni var tónsmíð af allt öðrum toga. Ionizations eftir Magnús Blöndal var samið með hinni svokölluðu tólftónatækni, sem var vinsæl aðferð meðal tónskálda á tuttugustu öld, en illa liðin af almenningi. Slík tónlist er afar ómstríð og tormelt, og oftar en ekki óhugnanleg. Engu að síður eru til mörg flott verk af þessum toga, og Ionization er eitt þeirra. Eyþór spilaði það af fagmennsku. Þar voru ýmist gríðarlegir, háværir hljómaklasar eða einfaldar, dularfullar hendingar sem sköpuðu annarlegt, sterkt andrúmsloft. Túlkun Eyþórs var markviss og aleitin; spúkí stemningin komst fyllilega til skila.
Ánægjuleg heildarmynd
Kafli úr sónötu eftir Gísla Jóhann Grétarsson var næstur á dagskrá. Tónlistin var í mjög einföldu, hefðbundnu formi og var nokkuð fyrirsjáanleg, en hún var blæbrigðarík í meðförum organistans og heildarmyndin var ánægjuleg.
Önnur Passakalía, að þessu sinni eftir Bach, rak svo lestina, og var hún yfirleitt hin glæsilegasta. Einstaka tónar voru að vísu ekki alveg hreinir, en túlkunin engu að síður stórbrotin, tignarleg og kraftmikil.
Ánægjulegt var að sjá hve tónleikagestir pössuðu vel upp á tveggja metra regluna, ólíkt því sem virðist hafa tíðkast undanfarið á mörgum börum. Í kirkjunni voru um níutíu manns, og hún er svo stór að auðvelt var fyrir gesti að dreifa sér um hana. Þetta var gaman.
Niðurstaða:
Falleg tónlist sem var prýðilega flutt.