Góð augnablik, góðir stundarfjórðungar

Geisladiskur

5 stjörnur

Epicycle II. Gyða Valtýsdóttir

Diamond

„Þegar maður heyrir slæma tónlist þá er það skylda manns að drekkja henni í samræðum.“ Þetta sagði Oscar Wilde, en hann gat verið einkar hnyttinn og orðheppinn. Hann sagði t.d. um Wagner að í tónlist hans væru góð augnablik, en slæmir stundarfjórðungar. Kannski er nokkuð til í því.

Ég hugsa að Wilde myndi bara þegja ef geisladiskur Gyðu væri spilaður fyrir hann, svona ef hann væri á lífi í dag. Þar eru nefnilega engir slæmir stundarfjórðungar, en þeim mun fleiri góð augnablik. Reyndar meira en góð.

Diskurinn ber nafnið Epicycle II og er framhald af diskinum sem innhélt nokkrar perlur tónbókmenntanna í nýstárlegum útsetningum. Að þessu sinni er fókusinn á nútímatónsmíðar eftir íslensk tónskáld, og allir hafa eitthvað mikið fram að færa. Verkin eru átta, og þar af eru þrjú þeirra sungin með undirspili.

Grípandi söngur

Sungna tónlistin er forkunnarfögur. Eitt lagið er eftir Ólöfu Arnalds, en hún býr yfir þeirri náðargáfu að geta samið unaðsfagrar melódíur. Verkið hennar heitir Safe to Love og Gyða sjálf syngur, auk þess sem útsetningin er eftir hana. Áferðin er draumkennd og þrungin ástarvímu, smám saman fjölgar milliröddum og tónlistin lyftist upp í einhvers konar algleymi sem líkt og rennur saman við eilífðina.

Annað lag heitir Evol Lamina, sem er Animal Love aftur á bak. Það er eftir Jónsa (í Sigur Rós) og Gyðu. Tónlistin er hrá og byggist mikið til á frumstæðri hrynjandi sem hlýtur óvæntan endi. Þetta er mögnuð tónlist. Í takt við nafnið er einhvers konar öfugheitastíll á laginu, megnið af hljóðunum sem þar heyrast virðist vera leikið aftur á bak. Fyrir bragðið er tónlistin annarleg, en á sjarmerandi hátt.

Þriðja sungna tónsmíðin, Liquidity, er eftir Gyðu og Kjartan Sveinsson. Hún hefst á angurværum píanóhljómum sem Kjartan sjálfur leikur. Síðan byrjar lágstemmdur strengjaleikur og Gyða syngur töfrandi laglínu. Tónlistin færist í aukana og útkoman er afar grípandi. Andstæður hljóðfæraleiks eingöngu og svo söngsins eru sterkar og spennandi.  Þetta er lag sem maður fær auðveldlega á heilann.

Fagur sellóleikur

Hin verkin eru líka flott, en þar er sellóið oft í forgrunni, enda er Gyða sellóleikari. Morphogenesis eftir Úlf Hansson er sérlega fallegt, en það hefst á síendurteknum, massífum, dálítið fjarlægum hljómum og djúpum bassa. Yfir þessu trónir fremur einmannalegur, leitandi sellóleikur. Þessir tveir þættir skapa kröftugan skáldskap sem situr í manni eftir að tónlistin endar.

Mikros eftir Önnu Þorvaldsdóttur er meira afstrakt, fullt af myrkri eins og tónlist Önnu er svo oft. Það byggir á fínlegum blæbrigðum og dökkum, liggjandi tónum sem skapa stemningu. Air to Breath eftir Daníel Bjarnason er sömuleiðis seiðandi, dálítið angurvært, en afar fallegt. Þar njóta sín til fulls hæfileikar Gyðu sem sellóleikara. Loks eru Unfold eftir Skúla Sverrisson og Octo eftir Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur eftirminnileg í dáleiðandi einfaldleika. Það gerist bara ekki betra.

Niðurstaða:

Magnaður geisladiskur sem verðugt er að hlusta á aftur og aftur.   

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s