„Where there is dope, there is hope“ segir ein persóna í bók eftir Philip K. Dick, vísindasagnahöfundinn fræga. Myndir á borð við Total Recall, Blade Runner og Minority Report eru byggðar á sögum hans. Téð bók fjallar um eiturlyfjalögreglumann og meinleg örlög hans þegar hann sogast sjálfur í heim fíknarinnar.
Dick var ákafur unnandi klassískrar tónlistar og hann hafði sérstakt dálæti á Beethoven. Persónur í bókum hans tjá sig stundum um tónskáldið og gera það á einstaklega djúpvitran hátt. Dick hafði því miður líka miklar mætur á amfetamíni og dópi almennt, og hann fór afar illa með sig, enda lést hann fyrir aldur fram.
Margir hafa þá ímynd af klassískri tónlist og þeim sem hlusta á hana, að hún stuðli að heilbrigðari lífstíl. Dick sannar að svo er ekki. Sömu sögu er að segja um nokkra höfuðsnillinga klassískrar tónlistar.
Beethoven, áfengi og blýeitrun
Sú goðsögn gekk lengi um Beethoven að andlátsorð hans hefðu verið „fagnið, vinir, því gleðileikurinn er á enda.“ Hann átti í þokkabót að hafa sagt það á latínu. Því miður er það ekki rétt. Það síðasta sem hann sagði var „æ, æ, það er of seint.“ Hann átti við kassa af rauðvíni sem honum var tjáð að útgefandinn hans hefði sent honum. Ekki er víst hvað varð Beethoven að bana þegar hann var 56 ára, en hann var sannanlega með skorpulifur, sem var út af ofneyslu áfengis. Ein kenningin er sú að hann hafi dáið út blýeitrun, en blýi var bætt í ódýrt rauðvín á þeim tíma til að bragðbæta það.
Bernstein og verkjalyf
Tónskáldið og hljómsveitarstjórinn Leonard Bernstein lifði ekki hamingjusömu lífi. Hann var samkynhneigður og þurfti að fela það til að komast áfram í tónlistarheiminum. Hann gifti sig og eignaðist þrjú börn, líklega fyrst og fremst til að líta vel út í augum almennings. Þegar konan hans lést jókst fíkniefnaneyslan hans. Síðustu árin var hann í heljargreipum verkjalyfja og þurfti stóra skammta af þeim til að komast í gegnum tónleika sem hann átti að stjórna.
Berlioz, ópíum og martraðir
Hector Berlioz hneigðist til ópíumneyslu, þó fyrst og fremst í lækningaskyni, þ.e. til að lina þjáningar og róa taugarnar, fremur en að komast í vímu. Hann tók hið svokallaða laudanum, sem var blanda af áfengi og ópíumi. Frægasta verkið hans er Symphonie fantastique, en þar kemur ópíum við sögu. Tónlistin fjallar um mann sem er heltekinn af ást. Hann fær sér ópíum og dreymir skelfilega martröð um að hann hafi drepið ástina sína, og er tekinn af lífi. Lokasenan er í helvíti, og er táknræn fyrir þjáningu vímuefnaneyslunnar. Hún endar alltaf fyrr eða síðar með geðveiki eða dauða, ef ekkert er að gert.
Stravinskí á fylleríi í sjónvarpsviðtali
Igor Stravinskí mun hafa haft mikið dálæti á viskí. Einu sinni var tekið við hann viðtal á skipi og það birt í sjónvarpsþætti. Stravinskí var dauðadrukkinn í viðtalinu. Hann svaraði sumu út í hött, og þegar spyrillinn spurði hvaðan tónlistin kæmi sagði hann með drafandi röddu: „Frá helgivaldinu…“
Undir lok ævi sinnar sagði hann í viðtali: „Óteljandi misheppnaðar tilraunir með hegðunarbreytandi lyf hafa haft slæm áhrif á mig.“ Það hljómar grunsamlega.
Schumann og öfgakenndar fingraæfingar
Fræðimaðurinn Martin Geck segir í ævisögu sinni um Robert Schumann að hann hafi verið „pólitískur aktívisti, faðir átta barna og háður hugbreytandi efnum.“ Hann ku líka hafa tekið gnægð af allskonar lyfjum í glímu sinni við sárasótt og til að lina sársauka í höndum. Schumann þjáðist af geðhvörfum og hann fór út í öfgar með fingraæfingar, því hann var ekki ánægður með getu sína sem píanóleikari. Ein æfingin fólst í því að skera á milli löngutangar og baugfingurs og reyna að teygja á milli þeirra. Það hafði ekki góðar afleiðingar, svo vægt sé til orða tekið.
Hildegaard von Bingen og breytt vitundarástand
Hildegaard var nunna sem var uppi á tólftu öld og er því aldursforsetinn hér. Hún sá sýnir og sumir vilja kenna því um að hún hafði mikinn áhuga á jurtum og einhverjar þeirra ollu vímu. Ekki skal fullyrt hér hvort sýnirnar hennar hafi verið einhvers konar dópbrjálæði; Hildegaard var mystíker sem fór upplifði fyrst og fremst breytt hugarástand með hugleiðslu og annarri trúariðkun. Þetta ástand, sem reyndir hugleiðsluiðkendur upplifa, er ekki einhver ímyndun. Það hafa ótal vísindarannsóknir sýnt fram á, og trúleysinginn frægði, Sam Harris gerir þær að umtalsefni bók sinni Waking up: A Guide to Spirituality Without Religion. Best er því að leggja vímuefnin á hilluna og fara að stunda hugleiðslu!