Heimilislegur Schubert

Geisladiskur

4 stjörnur

Sónötur eftir Schubert í flutningi Eddu Erlendsdóttur píanóleikara.

Erma

Ég hitti einu sinni leikkonuna Scarlet Johannson. Ég varð svo feiminn og yfirþyrmdur að ég kom ekki upp orði, og hugsaði bara um það hvað ég væri í ljótum bol. Það er því vel hægt að ímynda sér hvernig tónskáldinu Franz Schubert leið þegar hann hitti Beethoven. Schubert dáði hann mjög og flúði því æpandi af vettvangi, eða svo er sagt. Beethoven var nokkru eldri, og þegar hann lést var Schubert kyndilberi í jarðarförinni. Hann sjálfur varð ekki gamall, aðeins 31 árs, og er hann fann dauðann nálgast bað hann um að vera jarðaður við hlið meistarans. Honum varð ósk sinni.

Litli sveppur

Mörgum árum síðar voru jarðneskar leyfar tónskáldanna færð á betri stað, og við það tækifæri voru þau rannsökuð. Í ljós kom að höfuðkúpa Beethovens var þykk og sterkleg, en hin fíngerð, nánast eins og í konu. Schubert var ekki hár í loftinu, og var oft kallaður „litli sveppur.“ Heilt yfir er tónlist Schuberts mildari og ljóðrænni en sú sem Beethoven samdi, þó vissulega séu undantekningar. Hún er dásamlega fögur, laglínurnar eru himneskar og flæðið í tónlistinni innblásið og grípandi.  

Fyrir skemmstu kom út geisladiskur með Eddu Erlendsdóttur píanóleikara þar sem hún flytur þrjár sónötur eftir Schubert. Nánar tiltekið eru það sónötur í As-dúr D. 557, Es-dúr D. 568 og a-moll D. 537, allar samdar þegar tónskáldið var tvítugt.

Í rétta andanum

Skemmst er frá því að segja að leikur Eddu er prýðilegur. Hann er léttur og fíngerður í takt við tónlistina, kraftmikill þegar við á, en samt alltaf tempraður. Heildarmyndin er dálítið innhverf á einhvern sjarmerandi hátt, jafnvel þótt tónlistin sé full af æskufjöri. Enga tilgerð er að finna í spilamennskunni, hún er blátt áfram og heiðarleg. Flutningurinn er í hvívetna í samræmi við óskir tónskáldsins, ávallt í rétta, rómantíska andanum.

Edda mótar laglínurnar fallega. Schubert samdi alls konar verk, en ljóðasönglögin hans eru í sérflokki. Þau eru um 600 talsins, hann var bókstaflega sísemjandi. Einu sinni samdi hann átta lög á einum sólarhring. Þessi ljóðræna stemning er líka í verkunum fyrir hljóðfæri eingöngu, eins og t.d. hér. Edda spilar melódíurnar þannig að þær eru fullkomlega eðlilegar. Það er eins og þær verði til á því augnabliki sem þær eru leiknar.

Tæknilega séð er leikurinn skýr og jafn, og hendingar fagurlega mótaðar og smekklegar. Hljómurinn í píanóinu er mildur og hlýr, sem gefur heildarmyndinni notalega heimilislegan brag. Það er þægilegt að hafa þennan geisladisk á fóninum, líkt og Edda sjálf sé í stofunni að spila fyrir mann. Góðar stundir!

Niðurstaða:

Einkar vönduð og sannfærandi túlkun á sónötum eftir Schubert.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s