Töffararnir í klassísku tónlistinni

Ég er að horfa á þriðju seríuna af Twin Peaks, í fimmta eða sjötta sinn. Hún er guðdómleg. Í áttunda þættinum kemur fram hljómsveitin Nine Inch Nails, og í atriðinu eru allir með sólgleraugu, þó það sé býsna dimmt inni. Sólgleraugu auka mjög á töffaraímyndina sem hæfir laginu fullkomlega. Skáldskapurinn er myrkur og laglínurnar skuggalegar. Lagið heitir She’s Gone Away af plötunni Not the Actual Events. David Lynch leikstjóra fannst lagið sem þeir upphaflega sömdu fyrir þáttaröðina ekki nógu ljótt. Hann vildi lag sem kæmi hárinu til að rísa á höfðinu. She’s Gone Away gerir það svo sannarlega.

Maður sér aldrei hljóðfæraleikarana í Sinfóníuhljómsveit Íslands, hvað þá í hinum fjölmörgu kammerhópum landsins, vera með sólgleraugu á tónleikum. Engu að síður eru töffarar í klassíkinni líka. Á vefnum ClassicFM.com var gerð tilraun til að skilgreina hverjir hefðu verið mestu töffaratónskáld sögunnar. Spurningakönnun var lögð fyrir lesendur og hér er niðurstaðan:

1. Sjostakóvitsj gaf Stalín langt nef

Árið 1936 var Dmitri Sjostakóvitsj hakkaður í spað í sovéska málgagninu Prövdu – kannski af Stalín sjálfum – fyrir óperuna hans Lafði Macbeth af Mtsensk. Hún var kölluð „tað í stað tónlistar.“ Sjostakóvitsj bauð stjórnvöldum byrginn hvað eftir annað, þótt hann ætti á hættu að vera sendur í Gúlagið. Hann gerði það á táknrænan hátt með tónlist sinni. Tónlist er tungumál og þar er að finna myndlíkingar. Í verkum Sjostakóvitsj eru staðreyndirnar um Sovétríkin málaðar dökkum litum, og það gerði Stalín oftar en ekki brjálaðan. Sjostakóvitsj var þó þyrmt, því hann var of mikilvægur fyrir menningarlífið.

2. Chopin og ópíumdroparnir

Frederic Chopin náði mikla hærra í spurningakönnuninni en menn bjuggust við. Hann var nefnilega frumkvöðull, honum tókst að lyfta píanóleiknum á æðra plan og vílaði ekki fyrir sér að brjóta hefðir. Árni Kristjánsson orðaði það svo í bók sinni Um Chopin, ævi hans og einstök verk: „Á tímum innantóms virtúósafargans kom þessi sendiboði fegurðar til sögunnar og leiddi píanótónlistina af villigötum inn í land skáldskapar og lýrískrar fegurðar.“

Chopin mun líka hafa fengið sér ópíumdropa, sem hann lét falla á sykurmola. Það var þó bara til að slá á einkenni berklanna sem hann þurfti á endanum að lúta í lægra haldi fyrir, aðeins 39 ára gamall.

3. Hinn skapmikli Beethoven.

Ludwig van Beethoven var djarfur, bæði í hversdagslífinu og í tónlistinni. Hann henti einu sinni matardiski í þjón og átti það til að lögsækja fólk. Sinfóníurnar hans voru byltingarkenndar, aldrei hafði heyrst annar eins kveðskapur, sem einkenndist af stórbrotnum átökum og hástemmdri fegurð. Ekki síðri eru strengjakvartettarnir og píanósónöturnar sem hann samdi seint á ævinni. Það er háleit og merkileg tónlist, bæði fræðilega og tilfinningalega, ef svo má að orði komast. Hún var langt á undan sinni samtíð, og er það á vissan hátt ennþá. Hún hljómar ávallt fersk og það er ætíð eitthvað sem maður uppgötvar við hana í hvert skipti sem hún er sett á fóninn eða heyrist á tónleikum.

4. Liszt sem konurnar elskuðu

Franz Liszt, sem var uppi á árunum 1811-1886, var fyrsta poppstjarna sögunnar. Hann var ofurpíanóleikari og það lék allt á reiðiskjálfi á tónleikum hans. Konur féllu í yfirlið, og einu sinni þegar hann henti hanska út í sala, var hann rifinn í tætlur af tryllum kvendýrum. Þær vildu allar eiga hanskann.

Liszt var hjónadjöfull, hann tældi eiginkonu fransks liðsforingja, hina íðilfögru greifynju Marie d‘Agoult, sem fæddi honum þrjú börn. Tónlist hans var byltingarkennd og sumir telja að hún hafi verið forsmekkurinn að verkum Wagners og Debussys.

5.-10. Morðingi og 20 barna faðir

Önnur tónskáld sem komust á lista töffaranna í spurningakönnuninni voru Mozart, Stravinskí, Gesualdo, Mahler, Bach og Debussy. Mozart var að vísu enginn sérstakur töffari, en hann var sýndur sem kjaftfor og klúr í kvikmyndinni Amadeus, og það hafði sitt að segja.

Stravinskí gerði hins vegar allt vitlaust með ballettinum sínum Vorblóti, sem olli handalögmálum á frumsýningunni. Og Gesualdo drap konuna sína og ástmann hennar og samdi framúrstefnulega tónlist sem hljómar annarleg jafnvel í dag, 400 árum síðar.

Mahler samdi risastórar sinfóníur sem áttu að innihalda allt milli himins og jarðar. Bach var hent í fangelsi og átti tuttugu börn, svo eitthvað hefur kynlífið hans verið fjörugt. Loks komst Debussy á listann fyrir frumlegt tónmál og einkalífið hans var skrautlegt. Tónlist hans er vissulega fínleg og mild, eins og hún sé máluð með pastellitum. Engu að síður braut hún blað og þeir eru ófáir djasstónistarmennirnir sem hafa sótt í smiðju hans.

Núna þegar menningarlífinu hefur verið skellt í lás og ekkert að gerast næstu vikurnar er tilvalið að opna Spotify eða YouTube, hlusta á eitthvað af ofangreindu tónskáldunum… og setja upp sólgleraugun.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s