Píanóleikur sem fær hárin til að rísa

5 stjörnur

Píanógoðsagnir. Umsjón: Víkingur Heiðar Ólafsson á Rás 1.

Einu sinni var píanóleikari uppi á sviði fyrir fullu húsi. Hann dró gamlan sokk upp úr vasanum og sagði að Chopin hefði átt hann. Svo hengdi hann sokkinn á píanóið. Þar var hann alla tónleikana. Á öðrum tónleikum tilkynnti hann áheyrendum að hann væri í nærbuxum Chopins.

Þetta var Vladimir de Pachmann. Frá honum er sagt í frægri bók eftir tónlistargagnrýnandann Harold Schonberg, The Great Pianists. Bókin var biblían mín þegar ég var táningur. Hún fjallaði ítarlega um alla helstu píanóleikarana og var skreytt fyndnum sögum. Pachmann var mesti trúðurinn og fólk flykktist á tónleikana hans, ekki til að hlusta á tónlistina, heldur vita hvað hann myndi gera næst.

Mozart sýndur í versta ljósi

Upplifunin er svipuð í þáttaröð Víkings Heiðars Ólafssonar, Píanógoðsagnir, sem er á Rás 1 á RÚV. Þar er líka fjallað á safaríkan hátt um átta goðsagnakennda píanóleikara sem Víkingur hefur mestar mætur á. Vladimir de Pachmann kemur að vísu ekki við sögu, en margt er samt bráðskemmtilegt. Ég hló dátt þegar Glenn Gould spilaði brot úr sónötu eftir Mozart eins hranalega og honum var unnt, bara til að sýna hvaða álit hann hafði á tónskáldinu. Hann var á þeirri skoðun að Mozart hefði orðið fimm árum of gamall!

Píanóleikararnir sem um ræðir eru Emil Gilels, Benno Moiseiwitsch, Glenn Gould, Marta Argerich, Arturo Benedetti Michelangeli, Sergei Rakhmanínoff, Vladimir Horowitz og Dinu Lipatti. Víkingur fjallar um þá af yfirburðaþekkingu, hann kann sæg af sögum og spilar sjaldheyrðar upptökur.

Bach í mismunandi myndum

Í þættinum um Gould eru t.d. tónleikaupptökur af Goldberg-tilbrigðum Bachs sem fæstir hafa heyrt. Til eru tvær stúdíóupptökur af þessu mikla verki með Gould, og það eru fjölmörg ár á milli þeirra. Munurinn á þeim er gríðarlegur og sýnir hve hægt er að túlka sömu tónlistina á ólíkan hátt. Í þættinum leikur Víkingur brot af þriðju upptökunni, sem er talsvert ólík hinum tveimur. Þar er enn eitt sjónarhornið á Bach. Klassísk tónlist kemur stöðugt á óvart.

Brjálæðislegt niðurlag

Þættirnir eru opinberun. Umfjöllunin um Mörtu Argerich er í algerum sérflokki. Geta hennar og tækni er langt fyrir ofan flesta aðra. Hárin rísa þegar hún leikur brjálæðislegt niðurlagið í ungverskri rapsódíu eftir Liszt snemma í þættinum. Argerich er þó ekki bara yfirborðslegur virtúós, en hún er skapmikil og tækni hennar gerir henni kleift að fá fullkomna útrás í tónlistinni. Ég var persónulega aldrei neitt hrifinn af Argerich, en þáttur Víkings hefur breytt því. Á Spotify eru ótal plötur með henni sem eru svo sannarlega tilhlökkunarefni að kynnast.

Yfirbragð þáttann er frjálslegt. Víkingur er í hlutverki plötusnúðs, en hann er líka persónulegur og tengir píanóleikarana við sína eigin list, feril og uppvaxtarár. Hann segir vel frá og áhugi hans og ástríða á tónlist og túlkendum er smitandi. Útkoman er engu lík.

Niðurstaða:

Píanógoðsagnir eru fyrsta flokks útvarpsefni, fróðlegt og skemmtilegt.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s