Hjartað í Póllandi og stórfenglegur píanóleikur

Niðurstaða: Frábær píanóleikur og flest annað var glæsilegt.

Verk eftir Szymanowski, Chopin, Lutoslawski og Jón Nordal. Einleikari: Jan Lisiecki. Stjórnandi: Eva Ollikainen. Sinfóníuhljómsveit Íslands lék.

Eldborg í Hörpu

fimmtudaginn 3. nóvember

Pólsk-franska tónskáldið Frederic Chopin var sjúklega hræddur við að verða kviksettur, það er, að vera grafinn lifandi. Hann bað því aðstandendur sína um að láta taka úr sér hjartað að honum gengnum og grafa annars staðar. Fyrir vikið hvílir lík hans í París, en hjartað í Póllandi.

Á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið var pólsk tónlist í fyrirrúmi og Chopin fremstur. Dagskráin var helguð minningu pólska hljómsveitarstjórans Bohdans Wodiczko, sem var aðalstjórnandi hljómsveitarinnar um árabil. Aðalatriðið á efnisskránni var fyrsti píanókonsertinn eftir Chopin og var einleikari Jan Lisiecki. Skemmst er frá því að segja að leikur hans var stórfenglegur.

Frábær tækni

Fyrir það fyrsta var tæknin lítalaus, alls konar tónahlaup og heljarstökk eftir hljómborðinu voru fullkomlega af hendi leyst. Tónmyndunin var safarík, hljómurinn í píanóinu var sterkur. Túlkunin sjálf var líka einkar sannfærandi, hún einkenndist af ljóðrænu og fagurlega mótuðum laglínum, en líka gríðarlegri spennu og snerpu.

Konsertforleikur eftir Karol Szymanowski var einnig á dagskránni. Hann var skemmtilega leikinn undir öruggri stjórn Evu Ollikainen. Þetta er æskuverk í tiltölulega hefðbundnu formi, áður en tónskáldið hélt á vit framúrstefnunnar síðar. Hljómsveitin var samtaka og heildarhljómurinn var þéttur, en einstaka einleiksstrófur voru dálítið bjagaðar. Heildaráhrifin voru því ekki eins ánægjuleg og væntingar stóðu til.

Djúp hugleiðsla

Adagio fyrir flautu, hörpu, píanó og strengi eftir Jón Nordal var hins vegar magnað. Ástæðan fyrir því að verkið átti heima hér var að fyrrnefndur Wodiczko stjórnaði frumflutningi þess um miðjan sjöunda áratuginn. Eins og títt er um tónlist Jóns var stemningin alvöruþrungin, nánast eins og í djúpri hugleiðslu. Hún einkenndist af merkingarþrungnum blæbrigðum og angurværum laglínum, og nokkuð krassandi samspili ólíkra radda. Við fyrstu sýn virtist tónlistin hófstillt, en undir niðri var ólga; maður fann að  tónskáldinu lá mikið á hjarta.  

Óvinsæl formhyggja

Lokaverkið á efnisskránni var fyrsta sinfónían eftir Witold Lutoslawski. Hún féll kommúnistunum í Póllandi ekki í geð í þá daga, og í tónleikaskránni kom fram að sinfónían væri „byggð á „formalisma“ en ekki sósíalískum realisma“ án þess að það væri útskýrt nánar. En í formalismanum, eða formhyggjunni, kristallaðist ein af grundvallarspurningum módernismans, það er, hvað væri hægt að gera við form og tóna án þess að segja aðra sögu en þá sem einfaldlega bjó í tónrænum eigindum verksins, sem sagt í forminu sjálfu. Framámönnum fannst það ekki nógu gott, tónlistin átti ekki bara að vera einhver hrein tónlist, heldur byggjast á raunhyggju eða realisma, sem sagt endurspegla gildi byltingarinnar og vera hvetjandi fyrir almúgann.

Hvað um það, tónlistin var stórbrotin og grípandi, full af kræsilegum vendingum og litríkri atburðarás. Hljómsveitin spilaði eins og einn maður, túlkunin var kröftug og tilfinningarík, akkúrat eins og hún átti að hljóma. Styrkleikajafnvægið var eins og best verður á kosið, auk þess sem ólíkir hljóðfærahópar spiluðu af öryggi og heildarhljómurinn fágaður. Þetta var flott.   

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s