Hverju skal trúa

Niðurstaða: Líflegt tónleikhús sem féll greinilega í kramið hjá börnunum.

Skemmtilegt er myrkrið, tónleikhús eftir Elínu Gunnlaugsdóttur.

Þáttakendur: Ásta Sigríður Arnardóttir, Jón Svavar Jósefsson, Matthildur Anna Gísladóttir, Sigurður Halldórsson og Frank Aarnink Danhöfundur: Asako Ichiashi. Leikmynd og búningar: Eva Bjarnadóttir. Leikstjórn: Bergdís Júlía Jóhannesdóttir.

Kaldalón í Hörpu

laugardaginn 12. nóvember

Ég sat við hliðina á litlum dreng sem virtist lifa sig inn í tónleikhúsið Skemmtilegt er myrkrið. Það var sýnt í Kaldalóni í Hörpu á laugardaginn og var eftir Elínu Gunnlaugsdóttur. Sum atriðin voru að vísu þannig að drengurinn varð hræddur, en svo birti til og sagan hlaut farsælan endi.

Verkið var pantað af Töfrahurð. Það er félag um starfsemi sem er helguð tónleikum og útgáfu og hefur að markmiði að opna heim tónlistarinnar, bæði ný verk og gömul, fyrir börnum. Hér var blandað saman tónlist, leik og dansi, og var verkið unnið með Listdansskóla Íslands. Fjórar ungar stúlkur dönsuðu og gerðu það af áhrifamiklum yndisþokka.

Vel dulbúnir

Þrír hljóðfæraleikarar spiluðu á píanó, slagverk og selló, og ýmislegt annað á borð við sleifar, langspil og dótapíanó. Þeir eru þekktir úr tónlistarlífinu, en voru svo vel dulbúnir í kostulegum klæðum að þeir voru nánast óþekkjanlegir. Þetta voru þau Matthildur Anna Gísladóttir, Frank Aarnink og Sigurður Halldórsson.

Til að höfða til barnanna var sagan skondin, og ófáir brandarar flugu. Persónurnar voru tvær, Ása Signý og frændi hennar Jón Árni. Í þeim mættust gamall heimur og nýr. Frændinn trúði á drauga og forynjur en Ása Signý ekki á neitt. Yfirskilvitlegir atburðir í sögunni, leikur álfa og huldufólks, dansandi nykur og hvaðeina, gerði þó að verkum að hún þurfti að endurskoða afstöðu sína.

Flippaður hryllingur

Draugagangurinn var skemmtilega útfærður. Stúlkurnar úr Listdansskólanum léku t.d. nykurinn, sem er hulduhestur með öfuga hófa. Hann var dálítið hrollvekjandi á flippaðan hátt; útkoman var annarleg en um leið fyndin. Leikmyndin var líka mögnuð og gerði að verkum að maður datt enn betur inn í söguna.

Textar sönglaganna samanstóðu af gömlum vísum og ljóðum, en texti lokalagsins var þó saminn sérstaklega fyrir verkið af Þórarni Eldjárn. Tónlistin var ágætlega heppnuð. Hún var mjög rytmísk til að byrja með, jafnvel hörkuleg á fremur einstrengingslegan hátt. Maður saknaði þess að fá ekki að heyra meira af grípandi laglínum. Það eru jú melódíurnar sem höfða svo til barnanna, eins og óteljandi barnalög eru til vitnis um.

Hefði mátt vera fyrirferðarmeiri

Aðeins í einu atriðinu fékk ljóðrænan að njóta sín, það var fagur söngur við framandi undirleik og kom prýðilega út. Engu að síður var tónlistin í heild áheyrileg og flott á sinn hátt,  og hún var líka mjög vel flutt, af skýrleika og nákvæmni.

Ása Signý og Jón Árni voru leikin af Ástu Sigríði Árnadóttur sópran og Jóni Svavari Jósefssyni bariton. Þau voru sannfærandi í leiknum og söngurinn var frambærilegur. Söngur hljómar aldrei mjög vel í Kaldalóni vegna hljómburðarins, sem er ákaflega þurr. En það sem á vantaði í sönginn bættu leikararnir upp með ærslafengnum leik og manni leiddist aldrei, heldur þvert á móti.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s