Hallelúja en engin helgislepja

Niðurstaða: Messías eftir Handel var magnaður.

Messías eftir Händel. Flytjendur: Mótettukórinn og Alþjóðlega barokksveitin í Reykjavík undir stjórn Harðar Áskelssonar. Einsöngvarar: Berit Norbakken, Alex Potter, Elmar Gilbertsson og Oddur A. Jónsson.

Eldborg í Hörpu

sunnudaginn 20. nóvember

Ég er ekki viss um að fólk standi upp í Hallelúja-kaflanum í Messíasi eftir Handel vegna þess að kóngur þurfti að pissa.

Sú saga er til um George II að hann hafi þurft svo mikið að komast á klósettið þegar Messías var fluttur að hann hafi staðið upp á vitlausum stað. Það var í Hallelújakaflanum, en þá var verkið samt ekki búið. Þegar kóngurinn stóð upp þá risu allir á fætur. Síðan þá spretta allir upp þegar Hallelújakaflinn hefst.

Sannleikurinn er sá að enginn veit afhverju fólk rís úr sætum sínum á þessum tímapunkti í tónlistinni. Fólk reis oft úr sætum þegar kraftmiklir kórkaflar byrjuðu í ámóta tónsmíðum í gamla daga. Sennilegast er það bara vegna þess hversu tónlistin er flott og tignarleg. Hvað myndi maður ekki gera ef himnarnir opnuðust og sjálfur Guð almáttugur opinberaði dýrð sína?

Enginn reis á fætur

Aldrei þessu vant reis  þó enginn á fætur í Eldborg í Hörpu á sunnudaginn. Hallelújakaflinn var engu að síður prýðilegur í flutningi Mótettukórsins og Alþjóðlegu barokksveitarinnar í Reykjavík undir öruggri stjórn Harðar Áskelssonar. En hann var fínlegri en maður hefur oft upplifað. Hljómsveitin spilaði á svokölluð barokkhljóðfæri, sem eru eldri gerðir nútímahljóðfæra. Hljómurinn í þeim er mildari, og í sumum tilfellum mjórri. Kórinn var líka ekkert sérlega stór, svo heildaráferðin var ekki eins voldug og oft áður.

Messías er svokölluð óratóría, en það er trúarlegt tónverk þar sem helgitexti er settur í tónrænan búning frásagnar og hugleiðingar. Í Messíasi er hugleitt hvernig mannkynið frelsaðist fyrir son Guðs. Tónlistin er þó engin helgislepja, þvert á móti á hún margt sameiginlegt með óperum. Í henni eru aríur, söngles og kóratriði, og það er gjarnan mikið drama í frásögninni.

Fínir einsöngvarar

Túlkunin á sunnudaginn var lífleg. Hljómsveitin spilaði langoftast af öryggi og einsöngvararnir voru frábærir. Það var unaður að flusta á sópransöngkonuna Berit Norbakken. Frammistaða kontratenórsins Alex Potter var líka aðdáunarverð, og sömu sögu er að segja um tenórinn Elmar Gilbertsson og bassann Odd A. Jónsson.

Söngur kórsins kom ágætlega út. Mótettukórinn fagnar fjörutíu ára afmæli um þessar mundir. Hingað til hefur undirritaður bara heyrt hann í Hallgrímskirkju. Gaman var að hlýða á hann í Eldborginni. Hallgrímskirkja er mjög gallað tónleikahús, endurómunin þar er svo mikil. Hérna naut fagur kórsöngurinn sín til fulls, hann var bæði tær og glæsilegur.

Í það heila var Messías skemmtilegur, flutningurinn var fullur af andstæðum, allt frá hamslausum tilfinningasprengjum niður í ofurveikar, innhverfar hugleiðingar. Tónleikarnir voru þó ógnarlega langir, heilir þrír tímar með hléi. Messías er oft fluttur eilítið styttur, og hefði að ósekju mátt gera það hér. Það hefði gert góða tónleika enn betri.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s