Sumt var skemmtilegt en annað leiðinlegt

Niðurstaða: Mínímalistarnir og Gershwin voru frábærir, en sumt annað var ekki gott.  

Píanóhátíð Íslands, fyrstu tónleikar. Andrew J. Yang, Myung Hwang Park og Nína Margrét Grímsdóttir léku á píanó blandaða dagskrá.

Kaldalón í Hörpu

fimmtudagur 24. nóvember

Oft hefur verið gert grín að tónlist Philips Glass, því hún er svo endurtekningarsöm. Ég held að tónlist hans sé að einhverju leyti innblásin af því að hann starfaði sem leigubílstjóri um tíma. Síbyljan í tónlist hans minnir á umferðarnið, sem hefur róandi áhrif. Það sama heyrist aftur og aftur, en samt er þar framvinda sem oftar en ekki er afskaplega seiðandi, jafnvel dáleiðandi. Tónlistin er gjarnan angurvær, en í henni er líka undarleg birta.

Allt það besta við tónlist Glass mátti heyra í Mad Rush frá árinu 1979, sem Andrew J. Yang píanóleikari spilaði í Kaldalóni á fimmtudagskvöldið. Tónleikarnir voru forleikur hátíðar sem haldin verður næsta sumar og kallast Píanóhátíð Íslands. Tónlistin var íhugul og dálítið nostalgísk, og Yang lék hana forkunnarvel. Leikur hans var öruggur og nákvæmur, fullur af tilfinningum og hápunktarnir í tónlistinni voru magnaðir. Smágerð blæbrigði voru fallega útfærð, áslátturinn var fágaður, allt að því draumkenndur; akkúrat eins og hann átti að vera. 

Mínímalistarnir slógu í gegn

Glass er mínímalisti, sem þýðir að tónlist hans er byggð upp af litlum, síendurteknum hendingum sem saman mynda stóra heild. Dómkirkja úr óteljandi smáum múrsteinum er kannski ágæt samlíking; margt smátt gerir eitt stórt.

Annar mínímalisti, Steve Reich, átti líka flott atriði á tónleikunum. Þetta var Piano Counterpoint, en þar lék Myung Hwang Park á píanóið við upptöku af píanóleik sem spiluð var úr hátalara á sviðinu. Tónlistin var mjög lífleg og taktföst, og Park lék sitt hlutverk fullkomlega. Allar nótur voru á sínum stað og hrynjandin var stöðug og akkúrat. Útkoman var einkar skemmtileg.

Jákvæðar barsmíðar

Þessi tvö atriði voru hápunktur tónleikanna. Einnig var þó gaman af þremur prelúdíum eftir Gershwin í flutningi Yangs, en þar á meðal var sönglagið The Man I Love sem Percy Grainger útsetti.

Grainger var nokkuð forvitnilegur, hann var ástralskur píanóleikari og tónskáld, og sadómasókisti. Honum fannst kynlífið með konunni sinni ekki spennandi nema þau lemdu hvort annað. Mamma hans barði hann þegar hann var lítill og hann dreymdi um að eignast börn svo hann gæti barið þau líka. Sem betur fer varð honum ekki að ósk sinni. Hvað um það, útsetning hans á lagi Gershwins var skemmtileg og fullar af barsmíðum, en þær voru allar góðar og uppbyggilegar!

Tilþrifalítill leikur

Þriðji píanóleikari kvöldsins var Nína Margrét Grímsdóttir. Hún lék bara róleg lög eftir Chopin og Scriabin, og leikur hennar var afskaplega daufur. Regndropaprelúdían fræga eftir Chopin bauð t.d. upp á miklu meiri tilþrif og innileika; þar gerðist bókstaflega ekki neitt.

Dagskráin var bland í poka og sumt var arfaslakt og hefði vel mátt missa sig. Þar á meðal var óttalega þunnt verk eftir Myung Hwang Park, sem samanstóð aðallega af klisjum og virkaði helst eins og dinnertónlist. Dúett eftir Paderewski var líka skelfilega flatur, og sexhent æskuverk eftir Rakhmanínoff, þar sem allir þrír píanóleikararnir spiluð saman á eitt píanó, var afar klént. Rakhmanínoff var vissulega stórkostlegt tónskáld, en hér var hann ekki búinn að öðlast marktækan þroska sem listamaður. Tónlistin var engu að síður áhugaverð í ljósi þess sem síðar varð.

Vonandi eru tónleikarnir sjálfir líka vísir að einhverju stórfenglegu næsta sumar.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s